4.2.2009 22:36

Miðvikudagur, 04. 02. 09.

Klukkan 19.50 hófst þingfundur, þar sem Jóhanna Sigurðardóttir flutti skýrslu um stefnu ríkisstjórnarinnar og var ég einn þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins í umræðunum og flutti þessa ræðu.

Í dag var sagt frá því, að Baugur hefði farið fram á greiðslustöðvun fyrir héraðsdómi Reykjavíkur en bankar vildu ekki fallast á hana heldur gjaldfella lán sín.

Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs, brást við á sama hátt og áður: Hann kenndi Davíð Oddssyni um ákvörðun skilanefndar Landsbanka Íslands að stöðva lánveitingar til Baugs. Lárus Finnbogason, formaður skilanefndarinnar, sagði þetta fráleita fullyrðingu og út í bláinn.

Það er samhljómur milli Jóns Ásgeirs og hinnar nýju ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur: Sé eitthvað að, er það Davíð Oddssyni að kenna.

Eftir að hafa fylgst með þingstörfum og ræðum þingmanna í dag, undrast ég mest framgöngu framsóknarmanna. Sé hún til marks um hugarfar hinnar nýju framsóknar, boðar það aðeins samstarf framsóknarmanna við rauðgrænu stjórnina, hvað sem hún segir þeim að gera. Við vissum fyrir, að allur kraftur væri úr þingflokki framsóknarmanna en nú hefur hann að auki lagst flatur að fótum nýrra stjórnarherra.