27.2.2009 10:00

Föstudagur, 27. 02. 09.

Í Fréttablaðinu er efst við hlið leiðarans einskonar húskarlahorn, þar sem blaðamenn geta skrifað eins og þeir telja, að sé þóknalegt Baugsmönnum, eigendum blaðsins. Á þessum stað taka húskarlarnir einnig upp hanskann hver fyrir annan. Þetta gerist í dag, þegar bergsteinn@frettabladid.is tekur upp hanskann fyrir Sigurjón M. Egilsson, starfsmann á hjáleigu Baugs, en að Sigurjóni M. var vikið hér á síðunni í gær vegna rangfærslna hans um efnahagsbrotadeild.

Bergsteinn þykist ná vopnum fyrir félaga sinn Sigurjón M. með því að segja mig svara Sigurjóni M. en láta Davíð Oddssyni ósvarað, en Davíð minntist á starfsmannafjölda efnahagsbrotadeildar í Kastljósi sl. þriðjudag. Davíð sagði:

„Og ég sagði reyndar líka á þessum sama ríkisstjórnarfundi [30. september 2008], ég segi þetta vegna þess að aðrir hafa lekið útaf fundinum - ég sagði líka á þessum ríkisstjórnarfundi að ég hefði heyrt að minn ágæti vinur dómsmálaráðherrann hefði ætlað að fækka í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra um helming, í þeirri deild þyrfti nú að þrefalda eða fjórfalda. Þessu var reyndar ekki lekið út úr ríkisstjórninni.“

Lesendum síðunnar er auðvelt að bera þessi orð saman við það, sem verðlauna-blaðamaðurinn Sigurjón M. Egilsson skrifaði. Davíð segist hafa heyrt, að eitthvað hafi staðið til, sem síðan varð ekki, enda aldrei á döfinni hjá mér. Sigurjón M. fullyrti hins vegar, að ég hefði veikt efnahagsbrotadeildina „eftir hrunið.“

Hér er útlegging Bergsteins á þessu (leturbreyting mín):

„Enginn hlustaði

Í Kastljósviðtali á þriðjudag sagðist Davíð Oddsson hafa á fundi með ríkisstjórn gagnrýnt fækkun starfsmanna í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og lagt til að starfsmannafjöldinn yrði þrefaldaður. Björn Bjarnason staðfestir þetta á heimasíðu sinni. Hann fór þó ekki að ráðum Davíðs á sínum tíma og andmælir heldur ekki gagnrýni Davíðs, sem sagði fyrrverandi ríkisstjórn auk þess ítrekað hafa skellt skollaeyrum við viðvörunarorðum hans.

Og enginn svarar

Björn tók því hins vegar óstinnt upp í gær þegar bloggari [Sigurjón M. Egilsson – Bergsteinn nafngreinir hann ekki] á Eyjunni setti fram sömu gagnrýni og Davíð, það er að Björn hafi veikt efnahagsbrotadeildina með niðurskurði. Björn segir það ekki eiga við rök að styðjast og vísar í opinbera tilkynningu frá ríkislögreglustjóra í desember um góða málastöðu deildarinnar. Er þetta ekki enn eitt dæmið um þverrandi áhrif Davíðs innan Sjálfstæðisflokksins; ekki aðeins voru ráðleggingar hans hunsaðar heldur elta forystumenn flokksins frekar ólar við bloggara en að eyða svo miklu sem orði í að svara gagnrýni fyrrverandi formanns síns.“

Það er mikill munur á því sem Davíð sagði og þessum orðum Sigurjóns M.:

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, greip til þess ráðs eftir hrunið að veikja efnahagsbrotadeildina. Það er svo mikið í takt við allt hér. Efnahagsbrotadeildin er skorin niður..“

Í húskarlahorni Fréttablaðsins geta menn skemmt sér við að skjalla hver annan og telja sig meiri menn en áður eftir það hjal. Þeir hafa lengi haft sérstaka ánægju af því að gera það á kostnað okkar Davíðs Oddssonar en líka oftast á álíka veikum grunni og hér er enn nefnt sem dæmi. Og þetta dæmi er mun raunhæfara en hitt, að ég hafi ekki gert athugasemd við orð Davíðs af því að Sigurjón M. sé frekar svara verður en hann. Munurinn er sá, að Davíð fullyrti ekki neitt ranglega eins og Sigurjón M. gerði. Munur af þessu tagi skiptir blaðamenn í eltingaleik af þessum toga auðvitað engu máli.

Ég var sammála Davíð um nauðsyn þess að efla efnhagsbrotarannsóknir vegna bankahrunsins og flutti um það sérstakt frumvarp, sem samþykkt var samhljóða á þingi. Afgreiðsla þingsins tók hins vegar lengri tíma en ég ætlaði vegna tafa af hálfu Samfylkingarinnar. Hvort hinn sérstaki saksóknari fær verkefni eða ekki, kemur í ljós. Þar skiptir afstaða fjármálaeftirlitsins miklu máli en ég hef hvað eftir annað gagnrýnt leyndarhyggju þess.

Enn vil ég ítreka, að nýmæli sé fyrir mig, að þurfa að svara gagnrýni blaðamanna Baugsmiðla vegna skorts á fjármunum til rannsókna á efnahagsbrotum. Í húskarlahorninu hafa þeir fram undir bankahrunið frekar kvartað undan því, að efnahagsbrotadeildin sé að leggja of hart að sér og gagnrýnt aukafjárveitingar til rannsókna og saksóknar vegna Baugsmálsins.

Rétt fyrir klukkan 14.00 hélt ég austur í Skálholt. Þar flutti ég erindi um qi gong á kyrrðarhelgi og kenndi tæplega 30 manna hópi æfingar.