Mánudagur, 23. 02. 09.
Ég fylgdist með þingstörfum úr fjarlægð í dag, enda varla ástæða til annars, þar sem ríkisstjórn valdi þann kost að fella niður fundi á þinginu vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins um afgreiðslu á seðlabankafrumvarpinu úr viðskiptanefnd alþingis.
Spennandi verður að vita, hvort þeir, sem vikum saman hafa fundið að því, að sjálfstæðismenn ræddu í 14 mínútur um kjör forseta alþingis á dögunum, hefji nú gagnrýni á ríkisstjórnina fyrir að fella niður fund á þingi í stað þess að ræða önnur mál en seðlabankann. Mér heyrðist Heiðar Örn Sigurfinnsson, þingfréttaritari hljóðvarps ríkisins, ekki vera á þeim buxunum í Speglinum núna rétt í þessu, þegar hann gaf til kynna, að sjálfstæðismenn hefðu ekki efni á því að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir athafnaleysi á þingi.
Þá gerðu fréttamenn RÚV því skóna, að afstaða Höskulds Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, í viðskiptanefnd bæri þess merki, að hann væri að fara í prófkjör við Birki Jón Jónsson, hinn þingmann Framsóknarflokksins í viðskiptanefnd. Þeir töluðu eins og þetta gæti verið satt, þótt Heiðar Örn segði síðan, að svo gæti ekki verið!
Friðrik Þór Guðmundsson gegndi um nokkurt hlutverki rannsakanda fyrir Kastljós. Hann sagði á bloggi sínu í dag:
„Stórmerkilegt að Sjálfstæðisflokkurinn og Höskuldur Þórhallsson vilja ekki að Seðlabankafrumvarpið verði afgreitt úr viðskiptanefnd þingsins fyrr en tillögur nefndar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um regluverk á fjármálamörkuðum verða birtar.
Aðdáun þessara manna á Evrópusambandinu er viðbrugðið. Til fjandans með fullveldi Íslands - bíðum og sjáum hvað ESB gerir og vill! Skoðum "regluverkið".
Öðruvísi mér áður brá! Einu sinni vildu Sjallar og Frammarar ekki heyra minnst á "regluverk" ESB án þess að verða ýmist náfölir af ógeði eða rauðglóandi af bræði í framan...“
Friðrik Þór hefur sem betur fer látið af ráðgjafahlutverkinu á RÚV. Hann hefði ekki gert umræður þar um Höskuld málefnalegri. Er ekki mesta einstaka tjónið af bankahruninu hér, vegna þess að evrópska regluverkið var ekki nógu gott? Veit Friðrik Þór ekki, að við erum í evrópska efnahagssvæðinu, þar sem evrópska regluverkið gildir?