1.2.2009 6:17

Sunnudagur, 01. 02. 09.

Í dag er stjórnarráð Íslands 105 ára. Nú var efnt til ríkisráðsfundar með þátttöku forseta Íslands, en hann ákvað að vera erlendis, þegar 100 ára afmælinu var fagnað 2004, eins og frægt var. Þessa dags verður bæði minnst vegna heimastjórnarinnar og að kona varð í fyrsta sinn forsætisráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir fór ekki vel af stað á blaðamannafundi um nýja verkáætlun stjórnar sinnar í dag, þegar hún sakaði mig um að vera svifaseinn sem ráðherra og vísaði þar til frumvarps um skuldaaðlögun. Þetta frumvarp liggur einfaldlega óafgreitt í þingflokki Samfylkingar við stjórnarskipti í þeim búningi, sem það var flutt af mér að fenginni tillögu réttarfarsnefndar, eftir afgreiðslu ríkisstjórnarinnar og þingflokks sjálfstæðismanna. Frumvarpið tafðist fyrir áramót vegna yfirferðar í ráðuneyti Jóhönnu, sem síðan sagðist vera sama sinnis og viðskiptaráðuneytið, en það fékk málið einnig til skoðunar. Líklega lítur Jóhanna nú á það sem tímasóun, að það skuli hafa verið leitað álits í ráðuneyti hennar. Margt er unnt að skamma mig fyrir sem ráðherra, en ég held, að fáir, sem þekkja mín vinnubrögð, taki undir þá skoðun Jóhönnu, að ég hafi verið svifaseinn.

Ég hlustaði á þessa röngu frásögn verðandi forsætisráðherra, þegar ég ók á minn síðasta ríkisráðsfund á Bessastöðum. Þótti mér lítið leggjast fyrir Jóhönnu með þessum orðum hennar og ekki gefa mér góða mynd af væntanlegum starfsháttum.

Ríkisráðsfundurinn átti að hefjast klukkan 17.00 en honum seinkaði, þar sem ráðherrar Samfylkingarinnar komu of seint. Fundurinn var hins vegar stuttur og bauð forseti okkur pönnukökur að honum loknum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafði orð fyrir okkur ráðherrunum í fjarveru Geirs H. Haarde, en hann hélt í morgun til Hollands vegna veikinda sinna.

Sjálfstæðisráðherrarnir, sem þarna voru, kvöddu allir ríkisstjórn og einnig Björgvin G. Sigurðsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir úr Samfylkingu, en Björgvin sagði af sér sunnudaginn 25. janúar, en það vafðist fyrir einhverjum innan ríkisráðsins, hvernig ætti að taka á málinu, svo að Björgvin sat með okkur í starfsstjórninni, þótt hann hefði viljað fara fyrr. Þá tilkynnti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að hún mundi ekki setjast í næstu ríkisstjórn heldur einbeita sér að ná heilsu.

Ég hélt frá Bessastöðum um 17. 45 en klukkan 19.00 var ég í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og afhenti Rögnu Árnadóttur skrifstjóra lykla ráðuneytisins sem nýskipuðum dóms- og kirkjumálaráðherra. Við Ragna höfum starfað saman í ráðuneytinu síðan ég kom þangað árið 2003 en á síðasta ári gegndi hún tímabundið embætti ráðuneytisstjóra í veikindaleyfi Þorsteins Geirssonar og fyrir skömmu var hún sett sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Ragna hefur víðtæka reynslu innan stjórnsýslunnar, sem vonandi mun nýtast allri ríkisstjórninni. Ég óska henni velfarnaðar í ráðherrastarfi.

Jóhanna Sigurðardóttir segist vera góð í samskiptum, sé ekki gengið fram hjá henni. Mér þótti hún oft sýna mikla tortryggni og bregðast illa við, ef ráðherrar komu með útgjaldatillögur, ekki vegna þess að henni væri annt um fé skattgreiðenda heldur af því, að hún teldi, að einhver væri að fá meira heldur en hún. Hins vegar hef ég ekki þá reynslu af samstarfi við Jóhönnu, sem Steingrímur J. Sigfússon lýsir á þann veg, að hún hafi farið af fundum og skellt hurðum, fengi hún ekki sitt fram.

Jóhanna kvartar undan því. að fráfarandi ríkisstjórn hafi ekki afkastað nægu og nú verði hendur látnar standa fram úr ermum. Við, sem sátum í stjórninni, vitum, að þar voru eðlilega vandræði vegna fjarveru formanns Samfylkingarinnar. Ég veit, að Ragna Árnadóttir hefur mikið starfsþrek og Jóhanna þarf ekki að kvíða því, að hún vinni ekki ráðherravinnu sína. Á hinn bóginn fer enginn ráðherra hraðar við pólitískan þátt vinnu sinnar en samstaða er um í ríkisstjórn eða þingflokkum hennar. Og í þessari stjórn, sem nú hefur verið mynduð, sýnist eiga að verða eitthvert æðsta ráð með þátttöku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem situr utan stjórnarinnar. Skyldi Jóhanna telja þetta vera skynsamlega leið til að ná skjótum árangri í stjórnsýslunni?

Ekkert annað segir um Evrópumál í verkefnaáætlun hinnar nýju ríkisstjórnar en að Evrópunefnd, sem starfar undir formennsku Illuga Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, og Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Það hefur sem sagt komið í ljós, að hótanir Samfylkingarinnar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar í garð okkar sjálfstæðismanna um að stjórnarsamstarf við okkur þyldi ekki óbreytta Evrópustefnu var ekkert annað en tilraun til að skapa okkur vandræði og auðvelda stjórnarslit af hálfu Sanfylkingarinnar. Ég minni á það, sem ég sagði um þetta í pistli á dögunum.