15.2.2009 18:53

Sunnudagur, 15. 02. 09.

Larry King ræddi við nokkra leikara, sem hafa verið útnefndir til Óskarsverðlauna, í þætti sínum, sem sýndur var í dag. Penelope Cruz var í þeim hópi en hún leikur í mynd undir leikstjórn Woodys Allens, sem gerist í Barcelona. Penelope er ákaflega hrifin af því að hafa kynnst Allen og taldi það til sérstakra kosta hans, að hann tæki aldrei til máls, án þess að hafa eitthvað að segja.

Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, hafði það að segja við ljósvakamiðlana í dag, að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekkert erindi í formennsku hjá Samfylkingunni, þjóðin þyrfti endurnýjun á stjórnmálavettvangi en ekki endurvinnslu gamalla stjórnmálamanna. Þá gaf hann Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur það ráð, að taka sem fyrst af skarið, hvort hún gæfi kost á sér til endurkjörs.

Í pistli hér á síðunni í dag rökstyð ég, að ekki sé við því að búast, að ferlið við formannsskipti í Samfylkingunni verði opið. Reynslan sýni, að Ingibjörg Sólrún leitist við að koma samstarfsfólki á óvart með því að láta það standa frammi fyrir orðnum hlut, einmitt þess vegna líti margir innan Samfylkingarinnar á framtak Jóns Baldvins sem frumhlaup.

Sé kvarði Penelope Cruz notaður á ræðu Jóns Baldvins um formannsmál í Samfylkingunni, má spyrja, hvort hann hafi kvatt sér hljóðs, án þess að hafa nokkuð að segja, af því að enginn taki mark á orðum hans.

Mbl.is birti endursögn af pistli mínum í dag og er fróðlegt að sjá, hvernig lesendur bregðast við því, sem þar segir. Kristín Björg Þorsteinsdóttir, fræðslufulltrúi hjá Umferðarstofu, segir til dæmis:

„Hvað er BíBí að vilja upp á dekk. Held að hann ætti bara að setjast og lesa moggann sinn og láta lítið fyrir sér fara. Dáldið viðkvæmt fyrir hann að vera að tala um formennsku í flokki - ekki tókst honum á sínum tíma að vera kosinn foringi stuttbuxnadeildar Sjálfstæðisflokksins....“

Lesendum til skýringa, er Kristín Björg líklega að vísa til þess, þegar við Friðrik Sophusson tókumst á um formennsku í SUS árið 1973. Það lifir lengi í gömlum glæðum.