Þriðjudagur, 17. 02. 09.
Klukkan 17.00 efndu Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg til málstofu um auðlindir og hagsmunagæslu á norðurslóðum að hótel Sögu. Ég ræddi þar um Stoltenberg-skýrsluna og stöðu Íslands, Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður v/g og formaður utanríkismálanefndar, talaði um norræna samvinnu - nýtt upphaf, Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, talaði um hafís, umhverfisbreytingar og fjarkönnun á norðurslóðum og Kristján Geirsson, deildarstjóri á sviði umhverfisgæða hjá umhverfisstofnun, sagði frá vákorti á N-Atlantshafi - samhæfðum viðbrögðum við bráðamengun sjávar. Stefán Einar Stefánsson, formaður Varðbergs, stýrði fundinum.
Að loknum erindum sátum við fyrir svörum fundarmanna, Var meðal annars spurt um hættuna af kjarnorkukafbátum vegna frétta um árekstur fransks og bresks kjarnorkukafbáts 4. febrúar, sem sagt var frá nýlega í breska blaðinu The Sun. Ég sagði þennan árekstur mikið áfall fyrir Frakka og Breta og sagt hefði verið, að líkur á að slíkt gerðist væru 1 á móti milljón. Umræður um þetta mál og afleiðingar þess væru rétt að byrja.
Á ruv.is í kvöld mátti lesa:
„Sendifulltrúar Breta og Frakka voru í dag kallaðir í utanríkisráðuneytið og krafðir skýringa á því að kjarnorkukafbátar þeirra lentu í árekstri suður af landinu og hvers vegna ekki hefði verið greint frá málinu. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir alvarlegt að ekki hafi verið greint frá óhappinu fyrr.“
Ég feitletra orð í þessum texta, því að ég sá ekki betur en sjónvarpið teldi áreksturinn hafa orðið í Biskajaflóa, það er á milli Frakklands og Spánar.
Halla Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingfréttaritari Morgunblaðsins, er orðin aðstoðarmaður Ögmundar Jónassonar. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sjónvarpsfréttari mbl.is, birti „frétt“ í dag um, að hart hefði verið sótt að stjórnarandstöðu á þingi. Fréttin var svo skringilega úr garði gerð, að tæplega var unnt að átta sig á því, að árás samfylkingarfólks á sjálfstæðismenn á þingi snerist um, að þeir vildu ekki ganga í Evrópusambandið þegar í stað. Fréttapunkturinn var hins vegar ekki árásin á sjálfstæðismenn heldur hitt, að hún skyldi gerð af Samfylkingunni, sem nýlega hefur gengið til samstarfs við ESB-andstæðinga í flokki vinstri/grænna. Hvernig er fréttamatið?