Föstudagur, 13. 02. 09.
Enn sannast, að ekki er sama að vera Jón og séra Jón hjá fjölmiðlum. Í desember var dæmt í máli gegn Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, vegna uppsagnar hennar í bága við stjórnsýslulög, 21. grein. Var ráðherrann talinn hafa brotið stjórnsýslulögin.
Hefði þetta verið einhver annar ráðherra en Jóhanna, er víst, að fjölmiðlar hefðu, kannski að undarlagi Jóhönnu, gert dóminn að stórmáli - og Jóhanna hefði á þingi krafist afsagnar viðkomandi ráðherra, auk þess að endurflytja enn og aftur frumvarp sitt til breytinga á ráðherralögum, fyrir utan öll hin frumvörpin um endurbætur á stjórnsýslunni.
Aðeins einn íslenskur fjölmiðlill www.amx.is vakti máls á dóminum gegn Jóhönnu og hefur síðan fylgt honum eftir af vaxandi þunga. Er í raun með ólíkindum, að aðrir fjölmiðlar hafi ekki tekið málið til meðferðar. Þar er sérstök ástæða til að nefna Helga Seljan í Kastljósi sjónvarps ríkisins Á sínum tíma fór hann hamförum gegn Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra, af því að talið var, að hún hefði eitthvað um það að segja, að allsherjarnefnd alþingis samþykkti ríkisborgararétt tengdadóttur hennar. Nú hefur héraðsdómari kveðið upp dóm yfir Jóhönnu og Helgi þegir þunnu hljóði.
Þetta er þó aðeins önnur hlið málsins. Hin er sú, að Jóhanna hefur um árabil talið, að ráðherrar hafi sloppið allt of auðveldlega undan ábyrgð, hún vill, að ábyrgðin verði skilgreind á skarpari hátt en nú er, auk þess sem hún krefst þess, að ráðherrar víki strax í stað þess að sitja, eftir að þeir hafa sætt ámæli kærunefnda eða umboðsmanns. Hvað hefði hún sagt, ef dómur hefði fallið, eins og yfir henni sjálfri?
Ég hef lengi haldið því fram, að íslenskir fjölmiðlamenn séu ekki starfi sínu vaxnir og fært fyrir því rök hverju sinni. Nú sannast þessi kenning mín enn. Fjölmiðlamenn fara einfaldlega í manngreinarálit og nú þarf frjálsa vefsíðu www.amx.is til að skjóta þeim ref fyrir rass, þegar trúverðugleiki sjálfs forsætisráðherra er í húfi.
Es. athygli mín hefur verið vakin á því, að 11. desember hafi verið birt frétt um dóminn á mbl.is
Innlent | mbl | 11.12 | 17:34
Var vikið ólöglega úr stjórnarnefnd
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt fyrrum formanni stjórnarnefndar um málefni fatlaðra 500 þúsund krónur í bætur en talið var að honum hefði verið vikið úr nefndinni með ólögmætum hætti. Meira