Fimmtudagur, 05. 02. 09.
Ég mælti á alþingi í dag fyrir frumvarpi okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins um skuldaaðlögun. Ræðu mína set ég hér inn á síðuna, þegar hún hefur verið skráð af ræðuriturum þingsins. Ég hef einnig hug á því, að setja hér inn andsvör mín við ræðum annarra.
Fleiri mál en þetta frumvarp var undir í umræðunni, þar á meðal frumvarp dóms- og kirkjumálaráðherra um greiðsluaðlögun, sem er samhljóma frumvarpi okkar sjálfstæðismanna með tveimur undantekningum - þær komu til sögunnar eftir stjórnarmyndun til að Samfylkingin gæti réttlætt að hafa tafið afgreiðslu á frumvarpi mínu sem dóms- og kirkjumálaráðherra.
Í umræðunum í dag kom fram, að Samfylkingarmenn gátu ekki unnt mér þess að flytja þetta frumvarp, þótt þeir skömmuðu mig í hinu orðinu fyrir að hafa ekki flutt það miklu fyrr. Jóhanna Sigurðardóttir hefði flutt þingmannafrumvarp um málið og töldu þeir Mörður Árnason og Árni Páll Árnason mikið hneyksli, að ég hefði ekki séð um að koma því í lögtækan búning! Þetta eru sömu þingmennirnir, sem kvarta síðan í hinu orðinu um, að framkvæmdavaldið hafi alltof mikil áhrif á kostnað alþingis!
Þá var þarna einnig rætt um frumvarp um greiðsluaðlögun frá framsóknarmönnum en það er þannig úr garði gert, að því verður ýtt til hliðar í þingnefnd. Eygló Harðardóttir var talsmaður Framsóknarflokksins í þessu máli. Nýjum þingmönnum fer ekki vel að tileinka sér þá takta, sem hún hefur gert, það er einfaldlega ekki nein innistæða fyrir þeim.
Lítillega var sagt frá þessum umræðum í sjónvarpinu, án þess að frásögnin gæfi rétta mynd af því, sem fram kom í þeim. Morgunblaðið hefur sagt upp þingfréttaritara sínum en RÚV heldur úti tveimur fréttamönnum í þinghúsini og er þess vegna undarlegt, hve fréttir þaðan eru rýrar, þegar leitast er við að skýra fyrir hlustendum/áhorfendum umræður um flókin mál.