14.2.2009 19:33

Laugardagur, 14. 02. 09.

Jón Baldvin Hannibalsson krafðist þess í dag, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hætti sem formaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir yrði kjörin í hennar stað, ef Jóhanna vildi ekki taka áskoruninni, sagðist Jón Baldvin ætla að bjóða sig fram til formanns. Jóhanna taldi af og frá, að hún byði sig fram, Ingibjörg Sólrún sagðist ekki hafa tekið ákvörðun um að hætta, Jón Baldvin er þar með kominn í formannsslag í Samfylkingunni - flokknum, sem varð til, eftir að Jón Baldvin hætti beinum afskiptum af stjórnmálum 1998.

Fyrr í vikunni ritaði ég grein í Morgunblaðið og rifjaði upp, að formennska Jóns Baldvins í Alþýðuflokknum styrkti ekki flokkinn, hann mældist með 5% fylgi, þegar hann skreið í skjól Samfylkingarinnar í kosningabandalagi árið 1999.

Ingibjörg Sólrún sagði, að hún hefði axlað ábyrgð með því að rjúfa stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn, Jón Baldvin ætti að líta í eigin barm, hann hefði komið þessu öllu af stað með því að mynda ríkisstjórn með Davíð Oddssyni 1991!

Þessi skýring Ingibjargar Sólrúnar á stjórnarslitunum er hin þriðja. 1) Sjálfstæðisflokkurinn verður að breyta um Evrópustefnu. 2) Geir verður að hætta sem forsætisráðherra „verkstjóri“. 3) Samfylkingin axlar ábyrgð.