16.2.2009 21:35

Mánudagur, 16. 02. 09.

Helgi Seljan ræddi við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í Kastljósi  kvöldsins um dóminn, sem féll yfir henni hinn 11. desember 2008 vegna brots hennar á stjórnsýslulögum. Jóhanna sagðist una dóminum og ekki ætla að áfrýja honum. Af orðum hennar mátti þó ráða, að hún taldi, að frekar hefði átt að dæma þann, sem hún rak á ólögmætan hátt, en hana, enda væri hann framsóknarmaður og hún hefði ekki þurft að una því, að hann gerði kröfur á hendur henni, honum hefði verið nær að hætta þegjandi frekar en gæta réttar síns. Þá taldi Jóhanna sér það til málsbóta, að hún hefði tvisvar vakið máls á því í ríkisstjórn, að maðurinn ætti að verða við óskum hennar.

Ég velti fyrir mér, hvernig Jóhanna hefði brugðist við í þingsalnum í stjórnarandstöðu, ef einhver ráðherra hefði talað á þann veg, sem hún gerði um héraðsdóminn. Miðað við kröfur hennar um ráðherraábyrgð hefði hún krafist þess, að ráðherra með þá afstöðu, sem hún sýndi sjálf í samtalinu við Helga Seljan, yrði tafarlaust látinn víkja úr embætti.

Þótt samráðherrar Jóhönnu hefðu ekki gert athugasemdir við, að hún skipti um formenn í stefnumótandi nefndum, þegar hún varð ráðherra, er með öllu ósiðlegt af henni að láta að því liggja, að við hefðum þar með lýst blessun á lögbroti hennar.

Þetta mál var rætt í þingsalnum í dag, þegar Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Jóhönnu, hvernig hún ætlaði að bregðast við dóminum. Jóhanna svaraði þar einnig með skammarræðu um framsóknarmanninn, sem dirfðist að hlýða henni ekki.

Geir H. Haarde benti í þinginu á, að Jóhanna hefði ekki skýrt rétt frá samskiptum forsætisráðuneytisins við alþjóðagaldeyrissjóðinn vegna seðlabankafrumvarpsins - sjóðurinn hefði sagt það undir ráðuneytinu komið, hvort það birti athugasemdir hans við frumvarpið. Vitnaði Geir í bréf til sín frá sjóðnum um það efni. Jóhanna hélt nú ekki, að hún hefði sagt ósatt. Sjóðurinn hefði bannað sér að segja frá áliti hans, fyrr en það væri formlegt.

Á liðnum árum hefur enginn þingmaður tekið meira upp í sig en Jóhanna Sigurðardóttir um ábyrgð ráðherra á lögmæti gerða sinna eða skyldur þeirra til að segja þingi rétt frá stjórnarmálefnum. Á einum degi hefur hún sem forsætisráðherra snúið við blaðinu. Hún gefur ekkert fyrir héraðsdóm og sprengir reykbombur til að villa um vegna athugasemda alþjóðagjaldeyrissjóðsins.