12.2.2009 20:50

Fimmtudagur, 12. 02. 09.

Þingvallanefnd kom saman til fundar í dag og var það væntanlega síðasti fundur hennar á þessu kjörtímabili, sem lýkur hinn 25. apríl næstkomandi, verði þingkosningar þá.

Silja Bára Ómarsdóttir, sem kennir alþjóðastjórnmál við Háskóla Íslands, hefur lokið ritgerð um öryggismál Íslands, sem hún byggir á umræðum um tvö lagafrumvörp, það er að varnarmálalögum og almannavarnalögum. Hún lýsir undrun yfir því, að ekki sé gert ráð fyrir, að forstöðumaður varnarmálastofnunar eigi sæti í almannavarna- og öryggismálaráði. Ég er undandi á því miðað við undrun hennar, að hún skuli ekki hafa leitað skýringa á þessu. Ég hefði getað sagt henni, að utanríkisráðuneytið strikaði út tillögu mína um, að forstöðumaðurinn ætti sæti í ráðinu.

Þá lætur Silja Bára eins og almannavarnalög eigi að ná til atburða eins og bankahrunsins og viðskiptaráðherra eigi þess vegna að eiga fast sæti í almannavarna- og öryggismálaráði. Þetta er skrýtileg kenning, þegar til þess er litið, að fyrir bankahrunið bárust oft fréttir um, að innan bankakerfisins og með þátttöku fjármálaeftirlits og seðlabanka hefðu verið gerðar æfingar um álagsþol íslenska fjármálakerfisins. Þessar fréttir benda til þess, að innan þessa kerfis hafi verið sérhannað öryggiskerfi. Að Silja Bára skuli ekki lýsa því er til marks um undarlega brotalöm í ritgerð hennar.

Framsóknarmaðurinn og væntanlegi frambjóðandinn Hallur Magnússon virðist hafa efasemdir um, að Framsóknarflokkurinn hafi átt að flýta sér jafnmikið og hann gerði að samþykkja að verja ríkisstjórnina vantrausti - hún sé líklega ekki þess virði.

Framsóknarmaðurinn og fyrrverandi borgarfulltrúinn Björn Ingi Hrafnsson telur, að Ólafur Ragnar Grímsson hafi verið í baktjaldamakki við myndun ríkisstjórnarinnar.

Tómahljóð er í siðavöndunum framsóknarþingmannsins Eyglóar Þóru Harðardóttur, þegar hún belgir sig á þingi um „innantómt karp.“ Ræða hennar frá því í dag er til marks um, hve henni fer illa að skamma aðra fyrir „karp“ á þingi.