26.2.2009 11:28

Fimmtudagur, 26. 02. 09.

Sigurjón M. Egilsson hefur verið óþreytandi í að afflytja störf mín sem dóms- og kirkjumálaráðherra og heldur því áfram, þótt ég sé farinn úr því embætti. Hann segir á vefsíðu sinni:

„Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, greip til þess ráðs eftir hrunið að veikja efnahagsbrotadeildina. Það er svo mikið í takt við allt hér. Efnahagsbrotadeildin er skorin niður, ráðandi sérstakur saksóknari sem enn hlustar á eigið bergmál í tómum kontórnum. Hugsanlegir afbrotamenn geta verið rólegir. Sýndarveruleikinn sem var settur upp nær ekki til þeirra, ekki að óbreyttu.“

Þessi fullyrðing verðlauna-blaðamannsins á ekki við nein rök að styðjast, hvorki fullyrðingin um, að ég hafi veikt efnahagsbrotadeild sl. haust, né, að sérstakur saksóknari sitji auðum höndum. Hinn 23. desember 2008 birti embætti ríkislögreglusjóra opinbera tilkynningu um góða málastöðu hjá efnahagsbrotadeild embættisins. Hinn sérstaki saksóknari hefur á þeim mánuði, sem liðinn er, frá því að embættinu var komið á laggirnar, ráðið til sín mjög hæft starfsfólk og búið í haginn fyrir störf sín.

Mig undrar, að fjármálaeftirlitið skuli ekki hafa beint málum til hins sérstaka saksóknara. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður en líklega helst sú, að rof varð í yfirstjórn eftirlitsins við brottrekstur og afsögn stjórnar þess sunnudaginn 25. janúar. Hins vegar kann fjármálaeftirlitið enn haldið þeirri leyndarhyggju, sem einkennt hefur starf þess, jafnvel um atvik, sem ekki hafa nein áhrif á viðskiptalíf líðandi stundar en nauðsynlegt er að upplýsa og leiða til lykta fyrir opnum tjöldum.

Rógur á borð við þann, sem Sigurjón M. Egilsson telur sér sæma að bera á borð í umræðum um hinn sérstaka saksóknara, er ekki annað en endurómur af málsvörn Baugsmanna í réttarhöldum yfir þeim hin síðari ár. Sigurjón er greinilega einn þeirra fjölmiðlamanna, sem enn telur sig hafa hag af því að ganga erinda þeirra manna, sem vilja gera sem minnst úr opinberum rannsóknaraðilum, hvort sem um er að ræða efnahagsbrotadeild, skattrannsóknastjóra eða nú sérstakan saksóknara.

Um klukkan 17.30 voru greidd atkvæði við 3. umræðu um frumvarp til breytinga á seðlabankalögunum. Birgir Ármannsson hefur haldið utan málið af hálfu okkar sjálfstæðismanna og gert það með miklum ágætum. Hann gerði grein fyrir því við lokaafgreiðslu málsins, að við sjálfstæðismenn myndum greiða atkvæði gegn því. Breytingartillaga okkar hefði ekki verið samþykkt og inn í frumvarpið væri komið stórhættulegt ákvæði um tilkynningarskyldu peningarstefnunefndar, ef hún teldi fjármálakerfi í hættu. Þessi tillaga var flutt til að tryggja stuðning þingmanna Framsóknarflokksins við málið.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, talaði um nauðsynlega „hreinsun“ í seðlabankanum í skýringu á atkvæði sínu til stuðnings frumvarpinu og staðfesti þar með það sjónarmið, að málið væri flutt í þeim tilgangi einum að bola seðlabankastjórum úr embætti. Voru þessi orð í samræmi við efni bréfs Jóhönnu Sigurðardóttur til seðlabankastjóranna, en hún ritaði það strax á fyrsta sólarhring sínum í embætti forsætisráðherra.