6.2.2009 20:03

Föstudagur, 06. 02. 09.

Ráðist var á Vöku í stúdentakosningum Háskóla Íslands eins og jafnan áður fyrir að vera of höll undir Sjálfstæðisflokkinn. Síðan láta álitsgjafar eins og Sjálfstæðisflokkurinn eigi litlu fylgi að fagna meðal ungs fólks. Úrslit í stúdentaráðskosningum voru birt í morgun. Hver urðu þau? Þau birtast hér:

Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, bar sigur úr býtum í kosningum til Stúdentaráðs og háskólaþings Háskóla Íslands. Vaka fékk 2.342 atkvæði, eða 52,25% atkvæða. Röskva, samtök félagshyggjufólks við HÍ, fékk 2.140 atkvæði, eða 47,75%. Auðir og ógildir seðlar voru 144.

Vaka fær því 5 fulltrúa af þeim 9 sem í kjöri voru, en Röskva 4. Þar með snýst valdahlutfallið í ráðinu við. Röskva hefur verið í meirihluta undanfarin tvö ár, segir í tilkynningu frá kjörstjórn.

Háskólaþing:
Vaka fékk 2298 atkvæði eða 51,26%
Röskva fékk 2185 atkvæði eða 48,74%

Umræður á alþingi snerust í dag um frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um breytingar á yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Frumvarpið er illa úr garði gert og ekki fékkst upplýst hver hefði samið það - þó kom fram hjá Jóhönnu, að frumvarpið byggði að grunni til á breytingartillögu, sem hún flutti við frv. um seðlabanka á þingi 2001 og skýrslu alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stjórn seðlabanka frá 2005. Augljóst er, að þingefnd eða þingnefndir munu þurfa nokkurn tíma til að fara yfir þetta frumvarp. Ég kallaði það „hrákasmíð“ í umræðunum.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, flutti jómfrúrræðu sína í umræðunum og var hún ein samfelld árás á Seðlabanka Íslands, en Gylfi sagði, að hann hefði aldrei sinnt verkefni sínu sem skyldi. Saga hans væri hrakfallasaga.

Að lokinni ræðu Gylfa minnti ég á, að Jónas Jónsson frá Hriflu hefði 1930 sem dómsmálaráðherra lagt til að leggja niður hæstarétt og stofna fimmtardóm. Mér hefði komið til hugar, hvort viðskiptaráðherra ætlaði að leggja fram frumvarp um að seðlabankinn yrði lagður niður. Ég teldi, að aldrei hefði nokkur viðskiptaráðherra ráðist á Seðlabanka Íslands á þennan hátt í sölum alþingis, það ætti betur við að gefa bankanum fingurinn á þennan hátt úti á Austurvelli.