9.2.2009 22:20

Mánudagur, 09. 02. 09.

Við lok umræðu um frumvarpið til breytinga á seðlabankalögunum sl. föstudag lagði Jóhanna Sigurðardóttir til, að málið gengi til efnahags- og skattanefndar þingsins, sem var á skjön við verkaskiptingu milli nefnda þingsins. Þá lagði Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, til að málið færi til viðskiptanefndar, sem fjallar um bankamál.

Í upphafi þingfundar í dag dró Jóhanna tillögu sína til baka, enda sá hún fram á, að ríkisstjórnin yrði undir í atkvæðagreiðslu á þinginu. Staða stjórnarflokkanna er veikari í viðskiptanefnd þingsins en efnahags- og skattanefnd.

Ég hef ekki orðið var við, að þessi viðurkenning á vanmætti stjórnarflokkanna á þingi hafi vakið athygli. Staðreynd er, að þeir ráða ekki endanlegri gerð laga um Seðlabanka Íslands, hljóti frumvarp Jóhönnu á annað borð afgreiðslu í viðskiptanefnd. Hún kannaðist ekki við, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði gert athugasemdir við hið illa samda frumvarp hennar.

Óskiljanlegt er, að Jóhanna segist hafa kallað til sérfræðinga til að semja nýja stjórnarskrá og breytingar á kosningalögum, án þess að hafa nokkurt samráð við stjórnarandstöðu. Með þessu brýtur hún allar hefðir um meðferð slíkra mála.

Það verður enn skýrara, eftir að vinstri stjórnin kom til sögunnar, að fjölmiðlaumfjöllun snýst aðeins um gárur á yfirborði í stað þess að kafað sé í mál og reynt að skýra þau til nokkurrar hlítar. Eltingaleikurinn við Davíð Oddsson er það, sem á hug fjölmiðlamanna núna, en Jóhanna blés nýju lífi í hann um tíma. Nú segist hún hins vegar ekki ætla að atast meira í Davíð heldur bíða afgreiðslu alþingis á hinu meingallaða frumvarpi sínu. Á þessari stundu veit enginn, hvernig það lítur út að lokum.