Fimmtudagur, 19. 02. 09.
Fréttablaðið birtir í dag hluta af svari mínu vegna umræðu í utanríkismálanefnd alþingis um framgöngu Ólafs Ragnars Grímssonar. Hér birti ég svar mitt til blaðsins í heild, en ég sat ekki fund nefndarinnar:
„Þetta mál er einstaklega vandræðalegt fyrir Ólaf Ragnar Grímsson og hvorki embætti hans né orðspori Íslands til framdráttar. Ég tel, að það sé hlutverk utanríkisráðuneytisins að koma í veg fyrir atvik af þessu tagi með því að stjórna heimsóknum erlendra fjölmiðlamanna á Bessastaði og eiga fulltrúa á staðnum, þegar rætt er við forsetann. Það er mun virkari aðferð til að koma í veg fyrir slík atvik heldur en eltast við erfiðar afleiðingar þeirra með leiðréttingum eða ávirðingum í garð einstakra blaðamanna.
Ég sé í fréttum, að Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í utanríkismálanefnd, hefur mælst til þess, að forsetaskrifstofan geri nefndinni grein fyrir afstöðu sinni til frásagna af hádegisverðarfundi forseta Íslands með erlendum sendiherrum hér á landi. Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra og ráðherra, hefur í nýlegri blaðagrein fullyrt, að Ólafur Ragnar Grímsson hafi sagt rangt frá þeim fundi. Mér finnst þessi beiðni Ragnheiðar Elínar eðlileg í ljósi þess, að Árni Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, beindi því til forsetaskrifstofunnar, að hún gæfi álit sitt á skýrslu utanríkisráðuneytisins um fjaðrafokið í Þýskalandi vegna þess, sem haft var eftir Ólafi Ragnari þar.“
Var síðdegis í Valhöll á fundi með stjórn hverfafélagsins hér í Hlíðunum og ræddum við Evrópumál. Þá gafst okkur tækifæri til að skrifa undir meðmæli með frambjóðendum í pófkjöri, en þeir þurfa að hafa 20 nöfn á framboðsblaðinu, svo að það sé gilt. Framboðum á að skila núa fyrir helgina og þess vegna voru frambjóðendur að ná í eyðublöð í flokksskrifstofuna og gripu okkur fundarmenn glóðvolga.
Fram kom, að á fjölmennum, opinberum kaffistað hefðu í dag orðið heitar umræður, þegar gagnrýnt var, að sett hefði verið 2,5 m. kr. þak á útgjöld frambjóðenda í prófkjörinu - fólki hefði þótt þetta of há tala, nær væri að miða við eina milljón. Af eigin reynslu veit ég, að kostnaðartölur hækka fljótt, þegar háð er hörð prófkjörsbarátta.