18.2.2009 21:33

Miðvikudagur, 18. 02. 09.

Sat í morgun fund stjórnar Snorrastofu í Reykholti með byggðaráði Borgarbyggðar, þar sem rædd voru framtíðaráform. Á tíu árum hefur Reykholtsstaður tekið stakkaskiptum. Nýja kirkjan, endurgerð hinnar gömlu, fornleifarannsóknir, blómlegt starf Snorrastofu og gott hótel og aðstaða til rannsókna og fundarhalda hefur gjörbreytt staðnum og kallað þangað fleira fólk til starfa og búsetu.

Ingólfur Guðbrandsson, tengdafaðir minn, fékk í kvöld heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir ómetanlegt framlag sitt til íslensks tónlistarlífs og þakkaði Þorgerður, mágkona mín, heiðurinn með snjallri ræðu.

Kvikmyndin Ford/Nixon ætti að höfða til allra, sem hafa áhuga á stjórnmálum eða svonefndum drottingarviðtölum í sjónvarpi. Hún er vel gerð í alla staði, enda hefur hún verið tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna. Hún snýst meðal annars um efni, sem er ofarlega í huga margra hér á landi um þessar mundir, hvernig stjórnmálamenn horfast í augu við eigin gerðir og axla ábyrgð.

Meðal þeirra, sem aðstoðuðu David Frost við að búa sig undir viðtöl hans við Richard Nixon, var James Reston yngri, sonur James Restons, hins heimsfræga dálkahöfundar í The New York Times. Reston yngri var einlægur óvildarmaður Nixons, eins og lýst er í myndinni. Hann hefur ritað margar bækur og þar á meðal eina um Evrópu árið 1000, þar sem Leifur Eiríksson, Ísland og Íslendingar koma auðvitað við sögu.

Orðaskipti þeirra Frosts og Nixons um virðingu fyrir lögunum voru í svipuðum dúr og orðaskipti þeirra Helga Seljans og Jóhönnu Sigurðardóttur í Kastljósi á dögunum, þegar hún talaði eins og tilgangur sinn helgaði meðalið og engu skipti, þótt dómari teldi aðferð hennar lögbrot - hún hefði víst átt að gera þetta eins og hún gerði.