21.2.2009 21:24

Laugardagur, 21. 02. 09.

Ég skil ekki, hvernig sérfræðingur Morgunblaðsins í annarri tónlist en klassískri gat tekið nærri sér og fengið reiðikast yfir því, að Þorgerður Ingólfsdóttir notaði orðið „síbylja“ í snjallri ræðu sinni við afhendingu tónlistarverðlaunanna á miðvikudagskvöld. Ég hafði ekki áttað mig á því, að slík ofurviðkvæmni (eða kannski minnimáttarkennd?)væri fyrir hendi meðal þeirra, sem hafa áhuga á eða helga sig tónlist.

Sama kvöld og tónlistarverðlaunin voru afhent setti Eiður Guðnason á vefsíðu sína: „Við afhendingu tónlistarverðlauna hrutu ýmsir  molar, ekki allir gullslegnir. Þar var til  dæmis  talað um  söluárangur! Þar bar ræða  Þorgerðar Ingólfsdóttur af sem  gull af eiri, er hún tók við verðskulduðum  heiðursverðlaunum föður síns.“

Dr. Gunni segir í Fréttablaðinu 21. febrúar:

„Þorgerður Ingólfsdóttir, dóttir heiðursverðlaunahafans Ingólfs Guðbrandssonar, talaði um síbylju og Arnar Eggert fékk hland fyrir hjartað í Mogganum í gær. Snerist poppinu til varnar. Samt held ég að Þorgerður hafi ekki verið að tala um hina gamaldags skiptingu á „æðri“ og „óæðri“ listum, heldur þá óæskilegu (að hennar mati) þróun að í nútímanum sé sífelldur hávaði. Hún lýsti fyrstu kynnum pabba síns af tónlist, eitthvað sem væri óhugsandi í dag, nema foreldrarnir flyttu í afdal og tækju engin viðtæki með.

Hinn fúli póstmódernismi segir að allt sé jafn rétthátt. Pú á það. Ef enn er til fólk sem telur sig þekkja muninn á æðri og óæðri tónlist á það ekki að vera feimið við að tjá sig. Ég myndi hlusta á vikulegan þátt þar sem „menntasnobbarar“ hraunuðu yfir „síbylju“ og „garg“ og dásömuðu alvöru list. Í alvöru. Karlarnir sem rispuðu yfir „óæskileg“ lög á vinýlplötum RÚV í gamla daga ættu aftur að komast á launaskrá ríkisins. Vera með innslög í Popplandi þar sem Óli Palli myndi reyna að bjarga óæskilegum lögum frá hnífum þeirra sem hafa alvöru smekk og vita betur. „Tónlistardómstóllinn“ gæti innslagið heitið. Erfitt er að rispa yfir lög á cd og því mætti bara ganga á fordæmda diska með dúkahníf eða logsuðutæki. Topp skemmtiefni. Mun skemmtilegra en hið meinta umburðarlyndi.“