22.2.2011

Þriðjudagur 22. 02. 11.

Kuldinn heldur áfram í Boston, 11 stiga frost í morgun þegar við héldum af hótelinu. Það var hins vegar stillt og bjart. Undanfarnir þrír dagar hafa verið frídagar. Nú færist líf í umferðina á götunum.

Ég var í hópi þeirra sem töldu að forseti Íslands hefði ekki heimild til að beita 26. grein stjórnarskrárinnar á þann veg sem Ólafur Ragnar gerði með því að hafna fjölmiðlalögunum í byrjun júní 2004. Það var hins vegar gert og hefur nú verið gert tvisvar sinnum að nýju. Þessu valdi verður forseti Íslands ekki sviptur nema með breytingu á stjórnarskránni.

Eftir að forseti hefur beitt þessu valdi sínu er ég þeirrar skoðunar að breyti alþingi lögum eftir að þeim hefur verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna neitunar forseta eigi að leggja ný lög um sama efni fyrir þjóðina. Ólafur Ragnar valdi að móta reglu um þetta með því að neita að skrifa undir Icesave III. Hún verður ekki afnumin nema með stjórnarskrárbreytingu.

Stjórnlagafræðingar þurfa að greina hina nýju reglu, viðurkenna gildi hennar og útfæra með rökum.