14.2.2011

Mánudagur 14. 02. 11.

Fréttir úr alþingi benda til þess að þingmenn ætli að flýta sér að afgreiða Icesave III í von um að þar með hindri þeir að almenningur nái að setja fram háværa kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillaga um slíka atkvæðagreiðslu var felld í fjárlaganefnd þingsins í dag. Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem lýst hafði stuðningi við þjóðaratkvæðagreiðslu opinberlega í síðustu viku stóð ekki einu sinni með því að fara þá leið, ef marka mál fréttir.

Undarlegt er ef þingmenn telja að málskot til þjóðarinnar að nýju við afgreiðslu Icesave-málsins skapi fordæmi. Svo er alls ekki því að sérstaða laganna er svo mikil miðað við forsögu þeirra, að í raun þarf sterkari rök til að hafna þjóðaratkvæðagreiðslu en samþykkja hana.

Afstaða ríkisstjórnarinnar og þigmanna í málinu minnir ekki á annað en aðferðir valdhafa Evrópusambandsins við að ná málum fram án þess að leyfa lýðræðinu að njóta sín.