3.2.2011

Alþingi á ekki síðasta orðið um Icesave - heldur íslenska þjóðin


Fyrir um tveimur áratugum varð mjög víðtæk samstaða á alþingi um að segja Ísland úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Nokkrum árum áður hafði þingið samþykkt að sætta sig við veiðibann hvalveiðiráðsins. Tilgangurinn með úrsögn úr ráðinu var að skjóta sér undan þeirri ákvörðun og jafnframt var sagt að komið yrði á fót nýjum samtökum ríkja við Norður-Atlantshaf, NAMMCO. Innan þeirra gætu Íslendingar fengið lögmæti fyrir að hefja hvalveiðar að nýju.

Seint og um síðir opnuðust augu alþingismanna fyrir því hve vitlaus úrsögnin úr Alþjóðahvalveiðiráðinu var. NAMMMCO dugði ekki til að skapa lögmæti fyrir hvalveiðum Íslendinga að nýju. Þá var ákveðið að ganga að nýju í Alþjóðahvalveiðiráðið, með fyrirvara gegn hvalveiðibanninu. Úrsögnin hafði þann eina kost að gera alþingi kleift að breyta fyrri samþykkt sinni. Síðan var tekin ákvörðun um að leyfa hvalveiðar, þrátt fyrir miklar hrakspár um eyðileggingu fiskmarkaða og hræðslu í ferðaþjónustu við minni umsvif.

Sagan af samskiptunum við Alþjóðahvalveiðiráðið sýnir að í hvalamálinu tók þingið tvær vitlausar ákvarðanir sem bjargað var með einni réttri að lokum.

Því fer víðs fjarri að leika megi þennan leik í öllum málum. Það er til dæmis hvorki unnt í Icesave-málinu né ESB-málinu. Öryggisventill í slíkum málum er að skjóta þeim til þjóðarinnar sjálfrar.

Allir eru sammála um að alþingi skuli ekki að eiga síðasta orðið um aðild Íslands að ESB. Verði aðlögunarferlið ekki stöðvað af raunsærri ríkisstjórn á Íslandi, áður en því lýkur, hafa allir stjórnmálaflokkar heitið því að leggja niðurstöður aðlögunarviðræðnanna fyrir þjóðina til ákvörðunar. Vandræðagangur íslenskra stjórnvalda eftir að alþingi veitti umboðið til ESB-viðræðnanna sannar aðeins réttmæti kröfu landsfundar Sjálfstæðisflokksins um að sjálf spurningin um umsókn yrði lögð fyrir þjóðina.

Við allar eðlilegar aðstæður hefði mátt ætla að alþingi væri til þess hæft að afgreiða Icesave-málið. Eftir að það komst í hendur Steingríms J. Sigfússonar, Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar varð voðinn hins vegar vís. Málinu var endanlega bjargað úr höndum þeirra með þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010 þegar 98% þeirra sem tóku afstöðu höfnuðu samkomulagi þess tíma.

Nú tæpu ári síðar er Icesave-málið enn á dagskrá og nálgast nú það stig á þingi að meginþorri þingmanna lýsir sig hlyntan samningum um málið – fjárlaganefndarmenn Sjálfstæðisflokksins, formaður flokksins og að líkindum meirihluti þingflokks telja „hagsmunamat“ leiða til þeirrar niðurstöðu að samþykkja beri samninga við Breta og Hollendinga.

Sporin hræða í Icesave-málinu og sagan sýnir að breið samstaða þingmanna um lausn á alþjóðlegu ágreiningsmáli þar sem þeir eru beittir miklum þrýstingi af öðrum þjóðum eða hagsmunaaðilum samræmist ekki endilega þjóðarhagsmunum. Úr því að Icesave-málið var lagt í dóm þjóðarinnar og niðurstaða þess dóms leiddi til gjörbreyttrar samningsstöðu og síðan mun skynsamlegri niðurstöðu að mati þorra þingmanna er sjálfsögð og eðlileg krafa að alþingi ákveði að bera Icesave að nýju undir þjóðina.

Leikurinn í hvalamálinu verður ekki endurtekinn. Alþingi samþykkir ekki Icesave-skuldabagga á þjóðina sem vitrari menn síðari tíma geta skotið henni undan. Þess vegna á alþingi að samþykkja niðurstöðu sína í Icesave-málinu með fyrirvara um að hún öðlist gildi samþykki þjóðin hana í atkvæðagreiðslu.