4.2.2011

Föstudagur 04. 02. 11.

Á dögunum vakti ég máls á því hér á síðunni að ummæli Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, um stjórnlagaþingskosningarnar ógildu og hæstarétt hefðu minnt mig á að hann sagði í þættinum Sjálfstæðu fólki að sem stjórnmálamaður væri hann fyrst sósíalisti og síðan anarkisti.

Ögmundur bregst illa við þessari upprifjun minni á orðum hans og segir meðal annars á vefsíðu sinni í tilefni af henni:

„Skyldi það vera almennt viðhorf í íslensku þjóðfélagi að varasamt sé að hafa í mannréttindaráðuneyti - og þess vegna dómsmálaráðuneyti -  ráðherra sem er efins um valdstjórn og vill samfélag sem ekki byggir á yfirgangi og undirokun? Eða skyldi vera eftirspurn eftir þeim viðhorfum sem fram koma hér í skrifum  Björns Bjarnasonar?:

Sjálfum finnst mér þau vera ofstækisfull  - vart sæmandi virðulegum lífeyrisþega, Birni Bjarnasyni.“

Í niðurlagsorðunum gætir í besta falli einhverrar hótfyndni í garð þeirra sem hafa öðlast lögbundinn rétt til lífeyris ef ekki tilraunar til ritskoðunar.  Í tíð minni sem ráðherra var stundum fundið að skrifum mínum og sagt að þau hæfðu ekki embættinu, nú hæfa þau ekki aldri mínum. Það er vandlifað fyrir þeim sem telja sig í færum um að setja öðrum siða- og ritreglur.

Skáletruðu orðin í tilvitnuninni í Ögmund lýsa skilningi hans á anarkisma, stjórnleysi. Skýring hans er óvenjuleg og frumleg eins og við var að búast.

Skýringin í Merriam Webster-orðabókinni á orðinu Anarchist er þessi:

  1. : a person who rebels against any authority, established order, or ruling power    (maður sem rís gegn öllu valdi, ríkjandi skipulagi eða ríkjandi valdi)

  2. : a person who believes in, advocates, or promotes anarchism or anarchy; especially : one who uses violent means to overthrow the established order (maður sem trúir á, boðar eða ýtir undir stjórnleysisstefnu eða stjórnleysi;    einkum: sá sem notar ofbeldisaðferðir til að kollvarpa ríkjandi skipulagi).

Undrar nokkurn  að innaríkisráðherra Íslands vilji skýra hugtakið anarkisti upp á nýtt þegar til þess er vitnað að hann segist aðhyllast þá stefnu í stjórnmálum næst á eftir sósíalismanum?