17.2.2011

Fimmtudagur 17. 02. 11.

Nú er augljóst að fréttastofa RÚV er á móti söfnun undirskrifta kjosum.is . Af hennar hálfu er ekki flutt ein frétt af söfnuninni án þess að bæta því við að einhverjir einstaklingar hafi horn í síðu hennar af því að hún sé ekki nógu vönduð. Þá hafi þeir skotið máli sínu til persónuverndar. Í Kastljósi var meira segja hringt til manns í Gautaborg í Svíþjóð til að fá neikvæð viðhorf til kjosum.is.

Hvaða tilgangi þjónar þetta? Jú, fyrir þeim sem ala á því að ekkert sé að marka söfnunina vakir að draga athygli frá því hve skjótt almenningur hefur látið til sín heyra með því að rita nafn sitt á síðuna og skora á Ólaf Ragnar Grímsson að staðfesta ekki Icesave III. Þá telja úrtölumennirnir að þeir geti haft áhrif á Ólaf Ragnar og fælt hann frá því að taka mark á því sem fyrir hann verður lagt.