11.2.2011

Föstudagur 11. 02. 11.

Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, hrökklaðist frá völdum í dag. Hann sagði ekki sjálfur af sér heldur kom það í hlut varaforseta landsins að tilkynna í nokkrum setningum að Mubarak væri hættur að stjórna landinu og herinn tekinn við því hlutverki. Reiðin sem blossaði upp í gærkvöldi eftir ræðu Mubaraks jók enn á fjöldamótmælin í dag. Við blasti að til blóðbaðs kæmi ef forsetinn ætlaði að sitja áfram við völd.

Í dag hlustaði ég á viðtal sem Pétur Halldórsson tók við Önnu Svövu Traustadóttur á Akureyri og útvarpað var sl. mánudag. Áhugi minn á samtali þeirra byggðist á því að þau minntust á qi gong og mátti skilja á þeim að mikill munur væri á æfingum undir stjórn Gunnars Eyjólfssonar hér í Reykjavík og æfingum sem Anna Svava stundaði og kenndi undir stjórn meistara í New York. Var jafnvel látið í veðri vaka að Gunnar kenndi einhvers konar leikfimi en Anna Svava eitthvað annað.

Allar qi gong æfingar miða að hinu sama: að opna orkubrautir og stuðla þannig að betri líðan. Anna Svava nefndi um 1.000 ólíkar æfingar, aðrir segja að þær séu 3.000. Allar lýsingar Önnu Svövu á markmiðum þess sem hún lærir í New York eiga við um markmið æfinganna sem kenndar eru við Gunnar Eyjólfsson. Æfingakerfin eru ólík en miða að hinu sama.

Hér í Reykjavík og nú í nágrannabyggðum hefur hópur fólks stundað qi gong æfingar reglulega í tæpa tvo áratugi. Innan Aflsins, félags qi gong iðkenda, er hins vegar lögð áhersla á að enginn í hópnum líti á sig sem heilara að einhverju tagi en Anna Svava er að fara inn á þá braut með námi sínu. Hún fræðir fólk til dæmis um mataræði og aðra slíka hluti sem ekki er gert á vegum Aflsins.

Því ber að fagna að fleiri átti sig á gildi þess að stunda qi gong. Hver og einn getur þróað sitt eigið æfingaferli sem byggist á grunnreglunni um agaða öndun, agaðan líkamsburð og einbeitingu.