5.2.2011

Laugardagur 05. 02. 11.

Í dag efndi Bjarni Benediktsson til fundar í Valhöll og skýrði afstöðu sína til stuðnings Icesave-samningunum. 500 manns sóttu fundinn að sögn fjölmiðla. Friðrik Sophusson stjórnaði fundinum. Að honum loknum lýstu Geir H. Haarde og Þorsteinn Pálsson stuðningi við Bjarna. Í fréttum var sagt að flestir fyrirspyrjendur hefðu nálgast málið frá sjónarhóli efasemdarmanna.

Ég er undrandi á því að Bjarni taki ekki undir það sjónarmið að hin nýju Icesave-lög verði borin undir þjóðina. Rökin fyrir því eiga ekkert skylt við það hvort fleiri eða færri þingmenn samþykkja lögin. Meginrökin eru þau að málið er í höndum þingsins af því að þjóðin vísaði því þangað í atkvæðagreiðslu. Þingið á að fela þjóðinni að eiga síðasta orðið í málinu nema þingmenn vilji skilja það eftir sem opið sár.