24.2.2011

Fimmtudagur 24. 02. 11.

Í dag á Gunnar Eyjólfsson, ferðafélagi okkar hér í Boston, 85 ára afmæli og gerum við ýmislegt  skemmtilegt okkur til hátíðarbrigða.

Meirihluti nefndar sem Jóhanna Sigurðardóttir fól að ræða viðbrögð við ógildingu hæstaréttar á kosningu til stjórnlagaþings hefur lagt til að þeir sem náðu kjöri geti ráðið því hvort þeir setjist í stjórnlagaráð sem alþingi kjósi. Þetta eru fráleit vinnubrögð og megn óvirðing við stjórnarskrána.

Í lýðræðisríki er lögmæt framkvæmd kosninga grundvallaratriði heilbrigðra stjórnarhátta. Ríkisstjórn sem getur ekki tryggt snurðulausa framkvæmd kosninga er ekki á vetur setjandi. Að nú skuli meirihluti þingmanna sem stendur að baki ríkisstjórninni gera illt verra með því að ætla alþingi að lögfesta rétt þeirra sem hlutu ógilda kosningu til að sýsla með sjálfa stjórnarskrána og gera tillögur til breytinga á henni er með öllu óviðunandi.

Fallist Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon á þessa tillögu og hún hljóti stuðning meirihluta þingmanna sannar það aðeins enn og aftur hve ríkisstjórnin er á hættulegri braut er ósýnt um að hafa lög og rétt að leiðarljósi við ákvarðanir sínar.