25.2.2011

Föstudagur 25. 02. 11.

Það rigndi eldi og brennisteini fram eftir degi í Boston en undir kvöld fór að snjóa. Við fórum í Symphony Hall síðdegis og hlýddum á Boston Symphony Orchestra (BSO) leika 9. sinfóníu Mahlers.

Tónlistarhúsið var opnað í október árið 1900 og var hljómburður í því sérhannaður af Wallace Clement Sabine, ungum aðstoðarprófessor í eðlisfræði við Harvard-háskóla. Segir í kynningu á húsinu að það hafi verið hið fyrsta þar sem beitt var vísindalegum aðferðum til að ná sem bestum hljómburði. Húsið sé nú talið eitt af þremur bestu hljómburðarhús um heims, hin séu Concertgebouw í Amsterdam og Musikverein í Vínarborg. Bruno Walter hafi nefnt það „göfugasta tónlistarhús Ameríku“ og Herbert von Karajan hafi borið það saman við Musikverein með þeim orðum, að það stæði Musikverein jafnvel framar fyrir flesta gerð tónlistar.

James Levine er aðalstjórnandi BSO auk þess að stjórna við Metropolitan óperuna í New York. Hann átti að stjórna 9. sinfóníu Mahlers á fernum tónleikum nú um helgina en forfallaðist vegna veikinda. Í skarðið hljóp ungur aðstoðarstjórnandi BSO, Sean Newhouse. Hann fékk þarna fyrsta tækifæri sitt til að stjórna BSO á tónleikum og gerði það með mikilli prýði.