8.2.2011

Þriðjudagur 08. 02. 11.

Á sínum tíma þótti ekki beint diplómatískt af George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, að hvetja til þess að lýðræðisþróun yrði í arabaríkjum. Líklega hefur verið fussað og sveiað vegna þessa í forseta- og furstahöllum. Nú er annað uppi á teningnum. Allar fréttastöðvar heims eru með beinar útsendingar frá Egyptalandi þar sem þess er beðið að hinn almenni borgari hreki Hosni Mubarak úr embætti sínu eins og Ben Ali var sendur í útlegð frá Túnis. Vonandi fær lýðræði að spretta í þessum löndum eftir fall einræðisherranna.

Í Jemen hefur komið til mótmæla. Jórdaníukonungur skipti um ríkisstjórn. Einræðisherrann í Sýrlandi talaði um farsótt eða vofu sem færi um arabaheiminn og yrði að kveða niður.

Fréttir frá Íran um að ríkið sé hætt að greiða niður eldsneyti á bíla og matvörur hafi snarhækkað í verði benda til þess að þar eigi almenn óvild í garð stjórnvalda eftir að aukast.

Á Vesturlöndum eru menn teknir að velta fyrir sér tengslum ráðamanna við einræðisherra arabaríkjanna. Utanríkisráðherra Frakka berst fyrir embætti sínu vegna þess að hún flaug tvisvar með einkaþotu vinar Ben Ali ættarinnar á meðan hún var í fríi í Túnis eftir að mótmælin hófust. Forsætisráðherra Frakka er gagnrýndur fyrir að hafa notið gistivináttu Mubaraks í Egyptalandi um síðustu áramót.

Hvað um þá þjóðkjörnu fulltrúa sem hafa stofnað til vináttu við einræðisherra annars staðar meðal araba, til dæmis við Persaflóa? Hvenær taka alþjóðlegir fjölmiðlar til við að rýna í slík tengsl?