7.2.2011

Mánudagur 07. 02. 11.

Því meira sem ég les af skýringum um Icesave III þeim mun sannfærðari verð ég um hve misráðið er að láta ekki reyna á málið fyrir dómstólum. Auðheyrt var á Lee Bucheit, aðalsamningamanni Íslands í lokasamningalotunni, að hann var hlyntur því að láta dómara fjalla um málið. Umboð hans í nafni Steingríms J. Sigfússonar var hins vegar að semja.

Í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis eru kynnt sterk lögfræðileg rök gegn skyldu Íslendinga til að verða við kröfum Breta og Hollendinga.

Margir erlendir lögfræðingar hafa bent á haldleysið í áliti ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, sem síðan var stuðst við af leiðtogaráði ESB og framkvæmdastjórn ESB sumarið 2010. Þessir lögfræðingar segja afdráttarlaust að löglaust sé að gera þær kröfur á hendur Íslendingum sem Bretar og Hollendingar hafa gert. Þá benda þeir á að fráleitt sé að stjórnmálamenn taki pólitískt af skarið um jafnmikilvægt lögfræðilegt álitaefni.

Furðulegt er að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa brugðist við áliti ESA og lagt fyrir stofnunina lögfræðileg sjónarmið sín samhliða því að krefjast þess að forstjóri ESA víki sæti í málinu vegna vanhæfis eftir ummæli hans hér á landi í 50 ára afmæli EFTA sumarið 2010. Skyldi það vera rétt sem heyrst hefur að samningamenn Breta og Hollendinga hafi lagt hart að Íslendingum að senda ESA ekki lögfræðileg sjónarmið sín?

Íslensk stjórnvöld og þeir stjórnmálamenn sem styðja Icesave III hafa ekki gefið  nein haldbær rök fyrir því að lögfræðilegri hlið málsins hafi verið stungið undir stól. Helsta stoð smáríkja í deilum við sér stærri ríki er að verja rétt sinn fyrir dómstólum. Halda menn að það sé tilviljun að Bretar og Hollendingar hafa aldrei hótað Íslendingum málssókn? Eru það ekki hin eðlilegu viðbrögð lánardrottna gegn þeim sem þeir telja skuldunauta sína?