Þriðjudagur, 02. 03. 04.
Helgi Hjörvar alþingismaður tók til máls um störf alþingis í upphafi þingfundar kl. 01.30 síðdegis í dag. Hafði hann hringt í dómsmálaráðuneytið fyrr um daginn og spurt, hvort ég yrði við upphaf þingfundar, hann ætlaði að ræða um sérsveit lögreglunnar og mundi kannski minnast á fjárveitingar til dómstólanna.
Ég var við upphaf fundarins og þar fór Helgi Hjörvar mikinn og meira um dómstólana en sérsveitina og lét eins og ákvörðun um að efla sérsveitina bitnaði á fjárhag dómstólanna og réðst á mig fyrir „ofstopa“ í garð dómstóla auk þess sem ég væri að hrinda í framkvæmd hugmynd um íslenskan her.
Ég lýsti undrun yfir því, að Helgi tæki sérsveitina til umræðu á þessum forsendum, þar sem að ósk Ögmundar Jónassonar hefði verið ákveðin utan dagskrárumræða um lögreglumál fimmtudaginn 4. mars.
Ég itrekaði það sjónarmið mitt, að dómarar hefðu sýnt ábyrgðarleysi með því að lýsa réttaröryggi borgaranna í hættu vegna fjárhagsaðstæðna hjá dómstólunum. (En þetta kom fram í viðtali við mig í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins 1. mars, þegar ég brást við fréttatilkynningu dómarafélagsins.)
Einar Már Sigurðarson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norð-austurkjördæmi, tók til máls og sagði löggæslu ekki næga við Kárahnjúka, hvort ekki væri nær að huga að henni en að því að efla sérsveitina.
Ég sagði þessi ummæli sýna, að þingmaðurinn vissi ekkert um hvað málið snerist, því að skipulagsbreyting á sérsveitinni myndi einmitt hafa í för með sér að auðveldara yrði að beita henni til dæmis við Kárahnjúka. Auk þess þætti mér skrýtið að taka þetta mál upp á þessum tíma í þinginu, þar sem fyrir lægi fyrirspurn um löggæslu við Kárahnjúka frá Atla Gíslasyni (varaþingmanni vinstri/grænna). Skildi ég ekkert í því, hvaða æsingur þetta væri hjá Samfylkingunni.
Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks vinstri/grænna, tók til máls og lýsti einnig undrun sinni á þessu upphlaupi samfylkingarmanna, þegar mál þessi kæmu síðar á dagskrá og fyrir dyrum stæði að taka málefni heimahjúkrunar til umræðu utan dagskrár að ósk vinstri/grænna. Mátti skilja Ögmund svo, að þeir Helgi og Einar Már væru að reyna að draga athygli frá frumkvæði vinstri/grænna að umræðum um heimahjúkrun.
Klukkan 17.00 var ég í dægurmálaútvarpi Rásar 2 og ræddi sérsveitarmál og fleira við Ævar Örn Jósepsson.