Fimmtudagur, 04. 03. 04.
Klukkan 10.30 hófst umræða utan dagskrár á alþingi um sérsveit lögreglunnar að frumkvæði Ögmundar Jónassonar. formanns þingflokks vinstri/grænna. Ég skýrði sjónarmið mín í ræðu og hlustaði síðan á málflutning annarra, áður en ég átti lokaorðin eins og venja er í slíkum umræðum.
Framganga Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingarinnar, kom mér sérstaklega á óvart, vegna þess hve ræða hans var innihaldslaus og ómerkileg.
Klukkan 14.00 fór ég á fund í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar bar lögreglumál einnig á góma með vísan til þess, hve vel hefur til tekist með hverfalöggæslu í Grafarvoginum og verkefnið Hringurinn þar. Fór svo að Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi okkar sjálfstæðismanna, bar fram tillögu, þar sem fagnað var ákvörðun um að fjölga almennum lögreglumönnum í Reykjavík um 10 og hvatt til enn frekari aðgerða til að efla hina góðu hverfalöggæslu. Var tillgana samþykkt með 13 samhljóða atkvæðum af 15 í borgarstjórninni, eftir að R-listanum gafst fimm mínútna fundarhlé til að taka afstöðu til málsins.
Helgi Hjörvar er varaborgarfulltrúi og sat fyrri hluta borgarstjórnarfundarins. Fjarvera hann leiddi til þess, að unnt var að ræða á málefnalegum forsendum um löggæslu og lögreglu og komast að skynsamlegri niðurstöðu.
Ræddi um klukkan 15.30 í síma úr ráðhúsinu við Hallgrím Thorsteinsson á Útvarpi Sögu en hann var með Einar Karl Haraldsson í hljóðstofu hjá sér. Skiptumst við að skoðunum um sérsveitina.
Klukkan 19.30 var ég í Kastljósinu með Ögmundi Jónassyni og ræddi um sérsveitar- og lögreglumál við þá Sigmar og Kristján.