10.11.2006 23:53

Föstudagur, 10. 11. 06.

Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, var í Kastljósi í kvöld til að bera blak af Magnúsi Þór Hafsteinssyni, þingflokksformanni frjálslyndra, og Jóni Magnússyni hrl., sem nýlega er genginn til liðs við flokkinn - en þeir hafa valdið nokkrum titringi með tali sínu um fjölda útlendinga í landinu. Var þetta annað Kastljósið í röð, þar sem málsvara frjálslyndra eru kallaðir til að skýra stefnu sína en Jón Magnússon var þar í gærkvöldi.

Menn þurfa ekki að vera vel að sér í stjórnmálaþróun nágrannaríkjanna til að átta sig á því, hvað fyrir frjálslyndum vakir í tali sínu um innflytjendur - þeir eru að skipa sér á sama bekk og ýmsir kenndir við öfgar hafa gert í öðrum löndum í umræðum um útlendingamál - það er að gera þetta eina mál að höfuðumræðuefni í því skyni að höfða til óttatilfinninga og hala inn atkvæði. Að sjálfsögðu viðurkenna frjálsyndir ekki, að þeir séu að feta í þessi fótspor og leitast meira að segja við að skýla sér á bakvið menn eins og séra Tashiki Toma, sem lýsti yfir stuðningi við vinstri/græn, af því að honum þótti Samfylkingin ekki nógu afdráttarlaus í þeim málum, sem hann telur mestu skipta, þar á meðal útlendingamálum. Skyldi séra Toma taka því vel, að frjálslyndir telja sig vera að fylgja fram sömu stefnu og hann?

Margrét lét í Kastljósi eins og upphlaup frjálsyndra réði einhverju um það, að í morgun lögðum við þrír ráðherrar fram tillögu á ríkisstjórnarfundi um nýtt skipulag á íslenskukennslu fyrir útlendinga. Ég veit manna best, hve lengi þetta mál hefur verið á döfinni og afgreiðsla þess á ekkert skylt við tal Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Orð Margrétar sýndu mér aðeins, hve langt er seilst af frjálslyndum til að skreyta sig með fjöðrum annarra.

Í dag ætlaði ég að halda norður í Húnavatnssýslu til að taka þátt í því á morgun að opna með pomp og prakt innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar á Blönduósi. Ekkert varð af ferðinni vegna slæmrar veðurspár og frestaði sýslumaður athöfninni til betri tíðar.