19.11.2006 12:13

Sunnudagur 19. 11. 06.

Dreifingu Fréttablaðsins er þannig háttað, að blaðið berst aðeins öðru hverju heim til mín og þar af leiðandi les ég það æ sjaldnar. Hvort ég fer á mis við eitthvað, sem máli skiptir, veit ég ekki, en einn lesanda blaðsins sendi mér skammarbréf með vísan til fréttar í blaðinu þess efnis, að ekki væri nóg með, að ég hefði ákveðið að Coast Guard skyldi ritað á síðu vaðskipsins Týs heldur ætti nú að fara taka upp orðið police á lögreglubúninga. Þarna mun blaðið hafa verið að vísa til svars, sem ég gaf á alþingi miðvikdudaginn 15. nóvember. Ég veit ekki, hvernig sagt frá þessu í Fréttablaðinu en á alþingi sagði ég:

„Spurt er: „Hvers vegna er varðskipið Týr merkt „Coast Guard“ á báðum síðum skipsins í stað „Landhelgisgæslan“ eftir nýlegar endurbætur á skipinu í Póllandi?“

Þetta var gert í Póllandi eins og fram hefur komið en hefur nú verið afmáð af skipinu og verður væntanlega merkt bæði með íslensku og ensku heiti Landhelgisgæslunnar, eins og tíðkast víða um heim til að þau skip séu auðþekkjanleg, bæði fyrir þá sem kunna tungumál viðkomandi ríkis og einnig hinn erlenda aðila sem slík skip eiga óhjákvæmilega samskipti við.

„Verða önnur varðskip Landhelgisgæslunnar merkt á ensku í stað íslensku eins og verið hefur?“

Ef þetta verður útfært þannig að merkt verður bæði á íslensku og ensku, þá verður það væntanlega látið gilda um öll skip gæslunnar.

„Verða tæki og búnaður löggæslunnar, svo sem lögreglubílar og lögreglustöðvar, framvegis merkt á ensku en ekki íslensku?“

Það verður ekki farið að merkja lögreglubíla á ensku. Sumar lögreglustöðvar hafa nú þegar í dag heiti sitt á ensku. Ég tel líklegt að á nýjum búningum lögreglumanna muni einnig koma fram enska orðið „police“ til að það liggi ljóst fyrir hverjir eru þar á ferð.“

Ég sé satt að segja ekki, að vá sé fyrir dyrum, þótt orðin Coast Guard standi til dæmis á brúarvæng varðskips en orðið Landhelgisgæsla stórum stöfum á síðu þess, eða orðið Police standi einhvers staðar að búningi lögreglumanns.

Björg Eva, þingfréttaritari hljóðvarps ríkisins, klippti í hádegisfréttum búta úr umræðum á þingi 15. nóvember, þegar ég svaraði spurningu Kristins H. Gunnarssonar um hleranir á símum alþingismanna. Klippinu lauk á seinni ummælum Kristins H. en sleppti lokaorðum mínum - umræðurnar má lesa í heild á vefsíðu alþingis.