Miðvikudagur, 01. 11. 06.
Á ruv.is mátti í kvöld lesa þessa frétt:
„Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 2 prósentustigum og nýtur nú fylgis 43% þjóðarinnar samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi. Um er að ræða símakönnun sem gerð var dagana 29. september til 24. október. Samfylkingin missir þau 2 prósentustig sem flokkurinn bætti við sig í síðustu könnun og nýtur að þessu sinni fylgis fjórðungs þjóðarinnar. Framsóknarflokkurinn mælist með 8% fylgi á landsvísu, fer niður um 1% og hefur aldrei mælst með minna fylgi á þessu ári. Fylgi annarra flokka er nær óbreytt frá síðasta mánuði; Vinstri grænir með 20%, Frjálslyndir með 4%. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 53%.
Eftir kjördæmum skiptist það þannig að Framsóknarflokkurinn hefur minnst fylgi í Reykjavíkurkjördæmi suður, eða 3%, en mest í Norðvestur- og Norðausturkjördæmum, með 16% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist minnst með 35% fylgi í Norðvesturkjördæmi og mest fylgi í Suðvesturkjördæmi þar sem flokkurinn nýtur stuðnings helmings kjósenda. Frjálslyndir fá minnst fylgi í Norðausturkjördæmi, eða 2%, og mest í Norðvesturkjördæmi eða 6%. Samfylkingin hefur mest fylgi í Suðurkjördæmi, 28%, en minnst í Reykjavík suður með 23%. Þar eru Vinstri grænir stærri, með 25% fylgi en minnst fylgi fær flokkurinn í Suðurkjördæmi eða 16%.“
Hafi það verið ætlan Samfylkingarinnar að ná fylgi af Sjálfstæðisflokknum með hlerunarmálinu og framtaki Jóns Baldvins Hannibalssonar hefur það mistekist. Fylgi Samfylkingarinnar minnkar um 2% en fylgi okkar sjálfstæðismanna eykst um 2%. Það verður spennandi að fylgjast með því upp á hverju Samfylkingin finnur næst til að auka fylgi sitt.
Í dag tók ég þátt í umræðum utan dagskrár á alþingi, þegar ég brást við ósk Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um að ræða, hvort vopna ætti íslenska lögreglumenn, en enginn hefur gert um það tillögu. Líklega er það einmitt þess vegna, sem óskað er umræðna um málið utan dagskrár á alþingi - í því skyni að ala á grunsemdum um, að líklega eigi að vopna lögregluna! Þetta er það, sem nefnt hefur verið kjaftasögustjórnmál. Þau virðast ekki duga Samfylkingunni að auka fylgi sitt frekar en umræðustjórnmálin.