17.11.2006 11:42

Föstudagur, 17. 11. 06.

Var klukkan 17.00 í húsi ÍSÍ í Laugardal, þar sem efnt var til hátíðar vegna 20 ára afmælis Íslenskrar getspár - það er lottósins.

Ég sagði nokkur orð og vakti máls á málaferlum fyrir EFTA-dómstólnum, þar sem eftirlitsstofnun EFTA, ESA, er í málaferlum við norska ríkið vegna þess, að það eitt rekur lottó í Noregi. Dr. Páll Hreinsson prófessor flutti ræðu til stuðnings Norðmönnum fyrir dómstólnum og af hálfu Íslands var lögð fram ítarleg greinargerð gegn sjónarmiðum ESA. Tapi Norðmenn málinu kann það að draga erfiðan dilk á eftir sér en einka-spilafyrirtæki eru alls staðar að reyna að brjótast inn á evrópska markaði.

Hér eru gífurlegir hagsmunir í húfi þegar litið er til þeirra tekna, sem aflað er með lottói og almennt er nýtt til alls kyns þjóðþrifamála. Næðu alþjóðleg stór-spilafyrirtæki undirtökum á þessum mörkuðum í Evrópu myndi það leiða til þess, að skatta yrði að hækka til að standa straum af kostnaði, sem nú er fjármagnaður af lottóum eða öðrum sambærilegum aðilum.