Fimmtudagur, 16. 11. 06.
Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í 11. sinn. Hér á síðunni má lesa um það, þegar hann var haldinn í fyrsta sinn og tildrög þess að tillögu minni sem menntamálaráðherra. Njörður P. Njarðvík fékk verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í dag en hann átti góðan þátt í því á sínum tíma, að ég flutti tillögu um daginn í ríkisstjórn.
Í tilefni dagsins var okkur Rut boðið í Hvolsskóla á Hvolsvelli og hlýddum við þar á nemendur í 10. bekk lesa Njálu en þau skiptust á að lesa hana frá upphafi til enda allan daginn. Þá hlustuðum við á söng barnakórs Hvolsskóla, fimmundarsöng stúlkna úr 10. bekk, ljóðalestur og lestur á útdrætti úr sögum hjá nemendum í 5. og 6. bekk auk þess sem við skoðuðum skólann undir leiðsögn Unnars Þórs Böðvarssonar skólastjóra og Halldóru Magnúsdóttur aðstoðarskólastjóra. Nýbygging skólans vakti sérstaka athygli okkar en þar eru ekki hefðbundnar skólastofur heldur opið svæði, þar sem nemendur hafa starfsaðstöðu og rými til að kennarar geti rætt við lítinn hóp kennara. Þá var okkur einnig boðið í góðan hádegisverð með kennurum og nemendum.
Hvolsskóli er einstaklega vel úr garði gerður og skólabragur mjög góður. Metnaðarfull dagskráin í tilefni dags íslenskrar tungu er til marks um, hve vel hefur tekist til með daginn í grunnskólunum fyrir utan allt annað, sem menn gera sér til hátíðabrigða í tilefni dagsins.
Í stuttu ávarpi sem ég flutti minntist ég þess, að séra Tómas Sæmundsson, prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð ,hefði verið Fjölnismaður með Jónasi Hallgrímssyni og á næsta ári yrðu 200 ár liðin, frá því að þeir báðir fæddust. Rangvellingar ættu ekki aðeins mikinn menningarf í héraði sínu úr Njálu heldur einnig þann arf, sem tengdist Fjölnismönnum.