22.11.2006 21:39

Miðvikudagur 22. 11. 06.

36. fundur Evrópunefndar var haldinn í hádeginu í dag. Nefndin er nú að ljúka yfirferð sinni yfir þau mál, sem hún ætlaði að ræða og næst er vinna við skýrslu hennar.

Ég svaraði fyrirspurn á alþingi í dag frá Magnúsi Þór Hafsteinssyni, þingmanni frjálslyndra, en fyrir honum vakti að gera það tortryggilegt, að ekki væri skoðaður hugsanlegur sakaferill þeirra EES-borgara, sem hingað koma, einkum frá A-Evrópu. Var þetta greinilega liður í framlagi Magnúsar Þórs til umræðna um útlendingamál, en hann vill draga upp dökka mynd af þeim, sem hingað koma sem EES-borgarar. Ég svaraði á þann veg, að Íslendingar gætu fengið vinnu erlendis án þess að vera krafðir um sakavottorð og sama gilti um EES-borgara hér á landi.

Ég taldi hreint ábyrgðarleysi að ræða um málið á þann veg sem Magnús Þór gerði - ef hann vildi breyta þessu hér á landi, yrði hann að krefjast úrsagnar úr EES og afnáms reglunnar um frjálsa för.

Raunar skil ég ekki, hvers vegna frjálslyndir stíga ekki skrefið til fulls og krefjast úrsagnar úr EES, ef þeim vex svona í augum rétturinn til frjálsrar farar. Morgunblaðið gerir því skóna í leiðara í dag, að ekki sé langt á milli viðhorfa Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri/grænna, og frjálslyndra í útlendingamálum. Í blaðinu segir:

„Steingrímur er augljóslega heldur ekki sáttur við að hér á landi skuli borgarar frá öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eiga frjálsan atvinnu- og búseturétt. Hann segir í grein sinni (í Morgunblaðinu  21. nóvember) að með gildistöku EES-samningsins hafi Íslendingar orðið aðilar að hinum sameiginlega vinnumarkaði Evrópusambandsins og EFTA-ríkja „og þangað er í raun að rekja rót þeirra aðstæðna sem við búum nú við.“

Steingrímur J. Sigfússon var auðvitað á móti EES-samningnum á sínum tíma. Ein ástæða þess var að honum hugnuðust ekki ákvæði hans um frjálsan atvinnu- og búseturétt. Hann útmálaði í þingræðum að ekki þyrfti „nema bara að íbúar í tveimur til þremur blokkum í Lissabon kæmu hingað til þess að ójafnvægi gæti skapazt á íslenzka vinnumarkaðnum.““