Fimmtudagur 02. 11. 06.
Klukkan 07.45 var viðtal sem Ólöf Rún Skúladóttir tók við mig flutt á Morgunvakt rásar 1.
Klukkan 09.00 hófst ráðstefna með þátttöku um 60 manns á hótel Loftleiðum, þar sem rætt var til klukkan 15. 30 um orku-öryggi með sérstakri vísan til siglinga frá Kólaskaganum til Norður-Ameríku með olíu og gas um borð í risaskipum. Augljóst er að þessum skipum mun fjölga mjög á næstu árum hér í nágrenni við Ísland og þau munu fara bæði austan og vestan við landið. Við vorum minnt á hættuna við siglingar milli Íslands og Grænlands í sumar, þegar rússneskt skip fékk gat á skrokkinn í ís í júlí og varð að fara í slipp í Hafnarfirði.
Egill Helgason og Jónas Kristjánsson hafa komist að þeirri niðurstöðu á vefsíðum sínum, að ómaklegt sé hjá mér að tala um „andstæðinga“, þegar ég ræði um þá, sem styðja mig ekki í stjórnmálum. Jónas kallar það „vænissýki“, að ég skuli nota þetta orð.
Þessar aðfinnslur í anda pólitísks rétttrúnaðar styðja aðeins þá kenningu mína, að framlag svonefndra álitsgjafa til stjórnmálaumræðna hér á landi sé hjákátlegra en annars staðar. Kannski er þetta einhver tegund af póst-módernisma, þar sem allt er lagt að jöfnu og flatneskjan ein virðist mega móta umhverfið.