20.11.2006 21:19

Mánudagur, 20. 11. 06.

Í dag voru óundirbúnar fyrirspurnir á alþingi og þar spurði Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, um viðbrögð mín vegna greinar eftir Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjón í Morgunblaðinu og leiðara eftir Þorstein Pálsson í tilefni af grein Arnars í Fréttablaðinu. Beindi Jóhanna athygli að því, hvort jafnræði væri fyrir íslenskum dómstólum og taldi ég jafnræðisregluna gilda þar, en þingmönnum gæfist færi á að ræða um þessi mál, þegar frumvarp til laga um meðferð sakamála kæmi fyrir þing, hugsanlega á þessum vetri. Þá skýrði ég frá því, að á nýlegum aðalfundi Dómarafélags Íslands hefði ég rætt um, hvort hér ætti að taka upp þriðja dómsstigið og reifað þá skoðun, hvort óheppilegt væri, að hafa sett öll mál undir einn héraðsdóm í stað þess að hafa sérstakan sakadóm og annan sem fjallaði um einkamál. Þetta teldi ég ástæðu til að ræða, þegar fjallað væri um dómstóla. Ég minnti jafnframt á, að skoðanafrelsi væri í landinu og menn rituðu greinar í blöð og lýstu skoðunum sínum og gerði ég ekki athugasemd við það en ég kysi, að lýsa mínum eigin skoðunum í þingsalnum en ekki skoðunum annarra.

Mér skildist á Jóhönnu Sigurðardóttur, að uppi væru hugmyndir um, að dómsmálaráðherra veitti dómara lausn frá embætti, ef hann sætti sig ekki við niðurstöðu hans. Hvað ef hæstiréttur sættir sig ekki við niðurstöðu héraðsdóms? Á þá að huga að því að reka dómara? Eða ef mannréttindadómstóll Evrópu finnur að niðurstöðu hæstaréttar? Eða á bara að reka dómara, ef dómsmálaráðherra er ósammála niðurstöðu hans? Í 61. grein stjórnarskrárinnar segir: „Þeim dómendum, sem ekki hafa að auki umboðsstörf á hendi, verður ekki vikið úr embætti nema með dómi, og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra, nema þegar svo stendur á, að verið er að koma nýrri skipun á dómstólana.“ Vilja menn breyta þessu og heimila dómsmálaráðherra að reka dómara, ef hann er ósammála dómi hans? Hvert eru þessar umræður að þróast? Það er einkennilegt, að enginn skuli staldra við og spyrja sig að því, frekar en vænta þess, að dómsmálaráðherra blandi sér í þær á þann veg, sem Jóhanna Sigurðardóttir vildi á alþingi í dag.