Fimmtudagur, 23. 11. 06.
Við höfum oft heyrt þann söng undanfarin ár hjá álitsgjöfum og stjórnarandstöðunni, að stjórnarhættir hér hafi þróast á hinn versta veg og stjórnræði hafi tekið við af lýðræði. Stoðunum var kippt undan þessum fullyrðingum í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag, þar sem sagði:
„Ísland er í öðru sæti á lista rannsóknarfyrirtækis breska blaðsins The Economist yfir lönd þar sem lýðræðið þykir vera mest.
Listinn er í sérblaði The Economist um horfur í heimsmálunum á næsta ári. Svíþjóð trónir í efsta sæti á listanum með meðaleinkunnina 9,88 af 10 mögulegum. Ísland kemur næst með einkunnina 9,71.
Listinn byggist á mati rannsóknarfyrirtækisins Economist Intelligence Unit (EIU) sem gefur 165 sjálfstæðum ríkjum einkunnir í sex flokkum. Ísland fær 10 í einkunn í þremur flokkum: framkvæmd kosninga og fjölræði, pólitísk menning og borgaralegt frelsi. Aðeins tvö lönd fá einkunnina 10 í flokknum pólitísk menning, þ.e. Holland og Ísland.“
Egill Helgason heldur áfram að fjargviðrast yfir verkum okkar stjórnmálamannanna. Hann segir nýjast á síðu sinni:
„Það er búið að setja hundrað milljónir í íslenskukennslu fyrir útlendinga, mörg hundruð milljónir í kvikmyndagerð - allt án þess að Alþingi hafi verið spurt álits.
Það liggur við að maður fari að rifja upp gömlu loforðin um menningarhús í alla fjórðunga - ég man reyndar ekki betur en að þau hafi verið fjölnota - og um milljarðinn sem átti að setja í að berjast gegn fíkniefnabölinu. “
Líklega ætlar Egill ekki að vera sniðugur heldur vill, að hann sé tekinn alvarlega, þótt hann sé hlægilegur. Allt eru þetta innistæðulausar upphrópanir: Tillögurnar um fjárveitingar til íslenskukennslu og kvikmyndagerðar eru nú til afgreiðslu á alþingi. Unnið er að framkvæmd áætlunarinnar um menningarhúsin úti á landsbyggðinni eins og byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins í Reykjavík. Nýlega var skýrt frá því á alþingi, að 1700 milljónum króna hefði verið varið til að berjast gegn fíkniefnabölinu.