Laugardagur, 11. 11. 06.
Dr. Þór Whitehead prófessor skrifar grein í Lesbók Morgunblaðsins í dag, þar sem hann sýnir með rökum, að fullyrðingar Jóns Ólafssonar í lesbókinni 7. október um, að íslenskir kommúnistar hafi ekki búið sig undir að geta beitt valdi til að ná fram markmiðum sínum á Íslandi standast ekki. Raunar sýnir Þór einnig svart á hvítu, að Jón hefur orðið margsaga um þetta mál.
Dr. Þór hefur fylgt grein sinni í Þjóðmálum um viðbrögð stjórnvalda við valdabrölti kommúnista svo fast eftir, að þeir, sem að honum hafa vegið, Guðni Th. Jóhannesson, Kjartan Ólafsson og Jón Ólafsson sitja eftir með sárt enni.
Guðni Th. er hinn eini, sem hefur haft manndóm til að viðurkenna, að hann fór með fleipur, þegar hann lagði út af grein Þórs. Kjartani er mest í mun að fegra hlut sinn og annarra kommúnista á tímum kalda stríðsins og gera sem minnst úr Sovéttengslunum. Eftir lestur greinar Þórs um vinnubrögð Jóns Ólafssonar er ástæða til að spyrja, hverjum Jón telur sig vera að þjóna með því að fara meira að segja á svig við sín eigin skrif um þjálfun kommúnista á Íslandi til vopnaburðar.
Jón Baldvin Hannibalsson skrifaði af mestri illkvitni um Þór í tilefni af grein hans í Þjóðmálum og reyndi hvað hann gat, til að ýta undir þá skoðun, að með greininni hefði Þór verið að gera mér óleik vegna prófljörs okkar sjálfstæðismanna. Um þessa illmælgi er í raun ekkert að segja, því að hún dæmir sig sjálf, þegar menn kynna sér grein Þórs og það, sem hann hefur síðan sagt um málið í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Væri raunar fullt tilefni til að gefa þetta allt út í sérstöku hefti Þjóðmála, svo að menn gætu kynnt sér þetta á einum stað.
Að mínu mati staðfesta þessar umræður vegna greinar Þórs þá skoðun mína, að umræðuhefð kalda stríðsins lifir enn meðal vinstrisinna, þótt langt sé um liðið frá lyktum stríðsins. Þeir hafa einfaldlega ekki enn komist yfir að hafa tapað því og að málstaður þeirra lenti á sorphaugi sögunnar. Bandaríkjaóvildin hefur ekki heldur horfið úr huga þeirra, eins og best sannast á þeim óhróðri, sem Jón Baldvin telur sér nú sæma að flytja um Bandaríkin.