13.11.2006 20:48

Mánudagur, 13. 11. 06.

Hinar miklu umræður um merkingar vegna framkvæmda við vegi og umferðaræðar eru löngu tímabærar, en verða nú vegna hörmulegs slyss. Tildrög slyssins hafa ekki verið skýrð en ekið var á hindrun, sem sett hafði verið á veg vegna framkvæmda við hann.

Ég hef ekið töluvert erlendis og kynnst því þar, hve rækilega er leitast við að gera ökumönnum grein fyrir því, ef eitthvað óvenjulegt er á seyði framundan, hvort sem það er vegna framkvæmda eða annars. Mér hefur oft þótt skorta á sambærilegar viðvaranir hér, spurst fyrir um málið og hvatt til aðgæslu.

Látið var að því liggja í sjónvarpsfréttum, að verktakar héldu þessum viðvörunum í lágmarki vegna kostnaðar við þær. Ekki var leitað svara við því, hvort gert væri  ráð fyrir kröfum í þessu efni í útboðum og kostnaður vegna þeirra þá reiknaðar inn í verðið, sem vegagerðin greiðir verktökum.

Fyrir mörgum árum skrifaði ég leiðara í Morgunblaðið um skort á vegmerkingum og taldi þær miðast við, að vegfarendur vissu meira en við mætti búast. Næst frétti ég það af málinu, að sérfræðingur vegagerðarinnar í vegmerkingum hringdi í ritstjórann og lýsti undrun sinni yfir fávisku leiðarahöfundarins. Síðan hef ég látið mér nægja að íhuga þetta mál, án þess að tjá mig um það opinberlega. Ég er þó enn sömu skoðunar og þá, að merkingar hér á vegum, hvort sem er vegna hættu eða annars séu skornar of mikið við nögl. Er það gert í sparnaðarskyni?