Laugardagur, 18. 11. 06.
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag birtist frétt um, að á næstu árum getum við Íslendingar vænst þess að ferðum risastórra gasflutningsskipa í lögsögu okkar muni fjölga. Vísað er til ummæla Norðmanna um þessa þróun, sem telja lokun Keflavíkurstöðvarinnar tímaskekkju í ljósi hennar.
Ég hef oft vakið máls á þessari þróun í ræðu og riti og hinn 2. nóvember sl. efndi dóms- og kirkjumálaráðuneytið til alþjóðlegrar ráðstefnu hér á landi um málið og kallaði til sérfróða menn frá Noregi. Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum auk þess sem rússenski sendiherrann á Íslandi flutti ræðu á ráðstefnunni.
Í Morgunblaðinu er boðaður greinaflokkur um varnar- og öryggismál og er fagnaðarefni, að þessi mál séu tekin til umræðu. Við endurskipulagningu Landhelgisgæslu Íslands og við gerð krafna til nýs varðskips er einmitt tekið mið að þessari þróun. Á ráðstefnunni 2. nóvember gerði Ásgrímur L. Ásgrímsson grein fyrir starfi og stefnumörkun Landhelgisgæslu Íslands.