3.11.2006 21:19

Föstudagur, 03. 11. 06.

Flutti ræðu á aðalfundi Dómarafélags Íslands í Fjalarkettinum klukkan 14.00.

Kjartan Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans og forystumaður Sósíalistaflokksins, skrifar grein í Morgunblaðið í dag til að hreinsa sig af Sovétdekri íslenskra sósíalista á tímum kalda stríðsins og af fjárstuðningi frá Moskvu. Þetta tengist framgöngu hans vegna stóra hleranamálsins en ekkert liggur fyrir um, að sími Kjartans hafi verið hleraður. Engu að síður segir hann í þessari grein sinni: „væri álíka fráleitt og að kveða upp allsherjardóm yfir Bjarna Benediktssyni, fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins, aðeins út frá því að hann lét hlera símann hjá mér og mörgum öðrum“ - hin tilvitnuðu orð sýna óheiðarleika Kjartans í þessum umræðum.

Lögregla óskar eftir því við dóms- og kirkjumálaráðuneytið, að það leggi fyrir dómara ósk um, að heimild fáist til að hlera síma hjá þeim aðilum, sem líklegastir þykja til að espa til ófriðar í landinu - dómari fellst á tilmælin. Í endursögn Kjartans breytist þetta í það, að dóms- og kirkjumálaráðherra Bjarni Benediktsson hafi látið hlera síma Kjartans. Hvar er sönnun Kjartans fyrir því, að sími hans hafi verið hleraður? Hún hefur hvergi komið fram. Eitt er, að lögregla fái hlerunarheimild, annað að hún sé notuð. Kjartan hefur ekkert í höndunum, sem sannar, að sími hans hafi verið hleraður - engu að síður leggst hann jafnlágt og orð hans í Morgunblaðinu sýna til að sverta minningu látins manns. 

Þegar Kjartan Ólafsson tekur sér fyrir hendur að ræða um deilur kalda stríðsins, er engu líkara en öskutunna sé opnuð, fnykurinn verður slíkur.