Miðvikudagur, 29. 11. 06.
Málefni eldri borgara heyra ekki undir mitt ráðuneyti og ég er þess vegna ekki beinn þátttakandi í neinum viðræðum við þá, en hef hins vegar tækifæri til að fylgjast með framvindu samskipta við fulltrúa Félags eldri borgara af frásögnum annarra. Ég minnist þess fyrr á árinu, hve talið var mikils virði að samkomulag hefði tekist í nefnd sem Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari stýrði, samkomulag, sem var ritað undir af ráðherrum og fulltrúum eldri borgara við hátíðlega athöfn í Ráðherrabústaðnum. Til viðbótar við þetta samkomulag hefur ríkisstjórnin nú lagt fram tillögu um 300 þúsund króna frítekjumark til að draga úr skerðingum hjá eldri borgurum vegna atvinnutekna. Af hálfu ríkisvaldsins hafa þannig verið gerðar markverðar ráðstafanir til að koma til móts við sjónarmið forystumanna eldri borgara. Nú heyrist mér hins vegar, að þessir sömu forystumenn gefi lítið ef nokkuð fyrir þessa niðurstöðu og telji raunar, að þeir hafi ekki ritað undir neitt samkomulag heldur yfirlýsingu!
Það er greinilega erfitt að átta sig á því, hvað fyrir þessum talsmönnum eldri borgara vakir og hvort þeir vilji í raun leggjast á nokkra sveif með ríkisvaldinu heldur skipa sér jafnan í stjórnarandstöðu og hrópa með þeim, sem hæst lætur hverju sinni. Ég hélt raunar að tími slíkra aðferða væri liðinn, en það getur vissulega lifað lengi í gömlum glæðum.
Það var dæmigert fyrir hlutdrægni í fréttamennsku að heyra Heimi Má í kvöldfréttum Stöðvar 2 tala um, að Bjarni Benediktsson hefði sem dómsmálaráðherra „fyrirskipað“ hleranir hjá Hannibal Valdimarssyni, þegar um það var að ræða, að dómsmálaráðuneytið bar málið undir sakadómara, sem úrskurðaði um heimild til hlerunar með vísan til laga um meðferð opinberra mála. Þetta minnti á, þegar Heimir Má ræddi við Samfylkingarmann og sagði „við“ og vísaði þá til, að hann væri í flokki með viðmælanda sínum. Dómsmálaráðherra „fyrirskipaði“ ekki hleranir árið 1961 - dómari heimilaði þær og slík heimild jafngildir því ekki, að sími hafi verið hleraður. Þessar staðreyndir pössuðu einfaldlega ekki inn í áróður Heimis Más, sem fluttur var sem frétt.