24.11.2006 19:27

Föstudagur, 24. 11. 06.

Á fundi ríkisstjórnarinnar fékk ég heimild til að leggja fram fjögur frumvörp: 1. um breytingu á lögum um ríkisborgararétt, þar sem m. a. er gert ráð fyrir, að krafist verði kunnáttu í íslensku til að hljóta þennan rétt; 2. um herta refsingu fyrir að beita lögreglumenn ofbeldi; 3. um breytingar á dómstólalögum þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að fjölga héraðsdómurum úr 38 í 40; 4. um að biskup en ekki ráðherra skipi sóknarpresta.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í dag, að menntaður ljósmyndari eða nemi í ljósmyndun ætti að taka myndir vegna vegabréfa hjá sýslumönnum eða lögreglustjórum.

Í dóminum kemur fram, að ekki séu skert eignar- eða atvinnuréttindi ljósmyndara þannig að í bága fari við stjórnarskrá. Dómurinn segir að í vernd þessara réttinda felist ekki fortakslaus skylda ríkisins til að tryggja áframhaldandi óskert viðskipti ljósmyndara.

Málið er til athugunar hjá embætti ríkislögmanns.