15.11.2006 20:28

Miðvikudagur, 15. 11. 06.

Við qi gong félagar í Aflinum fengum nýjan samastað, þegar við hittumst um áttaleytið í nýju húsi SÁÁ að Efstaleiti 7, þar sem er glæsilegur salur til fyrirlestra og flutnings tónlistar. Forráðamenn hússins þeir Arnþór Jónsson og Ari Matthiasson hafa leyft okkur að nýta þennan góða sal og leist okkur mjög vel á alla aðstöðu þar. Við höfum um árabil notið góðvildar forráðamanna Þjóðleikhússins en nú er unnið að endurbótum á því og einnig á gamla dómssal hæstaréttar, þar sem við vorum síðast í skjóli Þjóðleikhússins.

Svaraði þremur fyrirspurnum á alþingi í dag um ljósmyndir vegna vegabréfa, áletrunina Coast Guard á varðskipið Tý og hleranir hjá alþingismönnum. Samfylkingarmenn eru á móti því, að almenningur fái þá þjónustu hjá sýslumönnum, að þar sé unnt að taka vegabréfsmynd. Ég skýrði frá því, að enska áletrunin á Tý hefði verið afmáð og líklega yrði bæði íslensk og ensk áletrun á varðskipunum. Fyrirpsurninni um hleranir taldi ég mér ekki fært að svara með vísan til árekstra milli einkalífs- og almannahagsmuna, auk þess sem heimild til hlerunar jafngilti því ekki, að sími hefði verið hleraður, og loks væri nefnd í krafti ályktunar alþingis með sérstöku lagaumboði að auki að rannsaka málið. Kristinn H. Gunnarsson framsóknarmaður spurði um hleranirnar en Björn Ingi Hrafnsson, flokksbróðir hans, taldi hann vera með auglýsingamennsku. Samfylkingarmennirnir í þingsalnum hlupu upp til handa og fóta til að aðstoða Kristinn H. og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir hafði þetta sem fyrstu frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 en ekki var sagt frá málinu í fréttum RÚV, hvorki hljóðvarpi né sjónvarpi um kvöldmatarleytið.

Hjálmar Árnason, framsóknarþingmaður í suðurkjördæmi, vakti máls á því utan dagskrár, hvort starfsemi Landhelgisgæslu Íslands öll eða að hluta gæti flust til Keflavíkurflugvalla og hafna á Suðurnesjum. Ég fjallaði aðeins um flugdeild gæslunnar og taldi önnur verkefni þar brýnni en flutning til Keflavíkurflugvallar, þótt ekki væri unnt að útiloka hann m.a. með vísan til þróunar á Reykjavíkurflugvelli.

Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn skrifar grein í Morgunblaðið í dag og segir, að árásir á sig í Blaðinu hafi þann tilgang að veikja trúverðugleika sinn sem vitni í Baugsmálinu. Hann telur Sigurjón M. Egilsson, ritstjóra Blaðsins, hafa þau tengsl, að þessi skoðun sín eigi við rök að styðjast.