Laugardagur, 25. 11. 06
Var klukkan 13.00 til 16.30 við doktorsvörn Sveins Einarssonar við hugvísindadeild Háskóla Íslands en hann varði ritgerð sína A People´s Theatre Comes of Age. A Study of the Icelandic Theatre 1860-1920. Vörnin fór fram í hátíðasal háskólans, Aðalbyggingu og hefst kl. 13. Andmælendur voru dr. Sveinn Yngvi Egilsson og dr. Trausti Ólafsson. Athöfninni stýrði Oddný G. Sverrisdóttir, forseti hugvísindadeildar.
Ég dáist af dr. Sveini fyrir að ráðast í þetta stórvirki en fróðlegt var að fylgjast með viðræðum hans og andmælenda og ræðum þeirra allra og er ég margfróðari um íslenska leiklistarsögu og gildi leiklistar í þjóðarsögunni eftir að hafa hlustað á þá. Þeir ræddu til dæmis mikið um skilin á milli áhugamennsku (amateurism) og fagmennsku (professionalism) í leiklist en kenning Sveins er sú, að þrátt fyrir að íslenskir leikarar hafi að mestu verið sjálfmenntaðir á þeim tíma, sem ritgerð hans spannar, hafi þeir samt sýnt svo mikla fagmennsku, að árið 1923 samþykkti alþingi, að reist skyldi þjóðleikhús, en slík hús séu reist um faglega leiklistarstarfsemi.
Við umræðurnar vaknaði enn sú spurning í huga mínum, hvenær segja megi, að nútíminn hafi komið til Íslands. Við hvað á að miða? Fyrsta vélbátinn 1902? Eða rómantísku vakninguna á 19. öld, sem olli svo miklum straumhvörfum í andlegu lífi þjóðarinnar og blés henni kjarkinn til sjálfstæðis í brjóst?
2004 var hundrað ára afmælis heimastjórnar minnst. Á næsta ári er unnt að minnast 100 ára afmælis svo margs, sem tengist afrekum hennar - til dæmis aldarafmælis fræðslulaga. Kom nútíminn til Íslands með þeim? Endurreisn alþingis 1843? Þjóðfundinum 1851? Stjórnarskránni 1874?
Upphaf leiklistar er samofin vakningunni, sem varð á 19. öld og bent var á það við doktorsvörnina, að yrðu íbúar á einhverjum stað á landinu fleiri en 100 tóku þeir fljótt til við að stunda leiklist og líta má á hana sem arf frá kvöldvökum í baðstofum fyrri alda, þar sem sagnamenn styttu fólki stundir.
Ofurbloggarinn Össur ritar á vefsíðu sína:
„Egill Helgason hefur skrifað af meistaralegri kaldhæðni um löngu gleymd „menningarhús“ ríkisstjórnarinnar sem átti að reisa á landsbyggðinni. Menningarhúsavæðingin var framlag Björns Bjarnasonar til byggðastefnu á sínum tíma. Hefur lítt til hennar spurst síðan fremur en annarra þátta byggðastefnu ríkisstjórnarinnar.“
Álitsgjafinn Egill segir:
„Jú, það er rétt, ég gerði smá feil með menningarhúsin. Ég í útlöndum þegar samið var um framkvæmdirnar við menningarhúsið á Akureyri. Las fréttirnar ekki nógu vel.“
Egill hefur vinninginn - Össur þarf að kynna sér málið betur - kemur ekki á óvart, frekar en fyrri daginn.