12.10.2000 0:00

Fimmtudagur 12.10.2000

Klukkan 10 fór ég í Kennaraháskóla Íslands og hitti þar Margrethe Vestager,, menntamálaráðherra Dana, sem ég hafði boðið hingað til lands meðal annars í því skyni að rita undir samstarfssamning um dönsku kennslu hér á landi. Ólafur Proppé, rektor KHÍ, flutti ávarp auk okkar ráðherranna. Síðan skoðuðum við teikningar af nýju húsi við skólann. Við ókum frá KHÍ í fallegu og björtu veðri til Selfoss, þar sem Óli Þ. Guðbjartsson, skólastjóri í Sólvallaskóla, tók á móti okkur og efndi til góðrar athafnar á sal skólans með upplestri á dönsku og söng barnakórs Selfosskirkju. Ég kvaddi ráðherrann á Selfossi að sinni en hún hélt í skoðunarferð til Gullfoss og síðan um Þingvöll til Reykjavíkur, þar sem við hittumst aftur um kvöldið. Síðdegis hélt ég til Keflavíkurflugvallar, þar sem ég tók á móti Völu Flosadóttur, bronsverðlaunahafa í stangarstokki á Ólympíuleikunum í Sydney.