11.10.2000 0:00

Miðvikudagur 11.10.2000

Klukkan 15.40 var umræða utan dagskrár á alþingi að frumkvæði Kolbrúnar Halldórsdóttur, Vinstri-grænum, sem vildi ræða við mig um RÚV. Ekkert nýtt kom fram í þeim umræðum fyrir utan það, að tveir varaþingmenn Framsóknarflokksins, Páll Magnússon og Árni Gunnarsson, tóku til máls og voru jákvæðari í garð breytinga á lögum um RÚV en áður hefur komið frá meðal framsóknarmanna. Klukkan 16.30 var blaðamannafundur í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem við Einar Sigurðsson landsbókavörður rituðum undir samning við fulltrúa fyrirtækisins Bell and Howell um aðgang allra Íslendinga að gífurlega miklum rafrænum gagnasöfnum og tímaritum fyrirtækisins.