18.10.2000 0:00

Miðvikudagur 18.10.2000

Við Ingimundur fórum fyrir hádegi á bókasýninguna og heimsóttum Íslendingana, sem þar voru með aðstöðu. Edda, hið sameinaða fyrirtæki Máls og menningar og Vöku-Helgafells, var með stóra sýningaraðstöðu og um 20 manns til að sinna erindum á sýningunni, en okkur var sagt, að aldrei fyrr hefði verið jafmikill áhugi á því að ræða við íslenska útgefendur um það, sem þeir hafa á boðstólnum. Við hittum einnig fulltrúa minni útgefenda, sem stóðu saman að sýningaraðstöðu. Þá hittum við forráðamenn sýningarinnar og fórum í fylgd eins þeirra til fimm þýskra útgefenda, sem gefa út verk íslenskra höfunda og var ánægjulegt að kynnast áhuga þeirra. Flaug heim með Flugleiðum klukkan 14.00 og um kvöldið tók ég þátt í setningartónleikum á ART 2000, þar sem flutt var raf- og tölvutónlist, sem lauk með flugeldatónlist og miklum hvelli.